141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði gert mér vonir um að við mundum samþykkja ramma og tillaga væri um það í nýjum fjárreiðulögum og að menn mundu halda sig innan rammans.

Nú er það svo að Ísland situr neðst ásamt Ungverjalandi þegar kemur að mismun milli fjárlaga og ríkisreiknings. Ég held að við hv. formaður fjárlaganefndar séum einfaldlega ekki sammála um að þetta frumvarp til fjáraukalaga sé vitnisburður um aukinn aga. Ég get ekki séð að sé aukinn agi þegar eftirlitið með lögunum er nánast ekkert. Við höfum ekki fengið álit frá Ríkisendurskoðun. Það var enginn ráðherra kallaður fyrir nefndina. Það var fullyrt að ekki mundu koma fleiri fjárbeiðnir við 3. umr.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægasta tækið, þ.e. að koma á aga í fjármálum til þess að stöðva þann verðbólguþrýsting sem hefur verið að undanförnu og koma skikki á fjármál (Forseti hringir.) ríkisins.