141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er um margt merkilegt að sitja sem aðalmaður í fjárlaganefnd Alþingis. Ég settist í þessa nefnd nú á haustdögum og þar hefur tíminn farið í fjárlög og svo fjáraukalög sem við afgreiðum til 3. umr. og væntanlega til atkvæðagreiðslu hér eftir helgi.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um það að fjárlaganefndarmönnum, í það minnsta minni hluta, er gert erfitt fyrir að axla þá ábyrgð sem í því felst að vera fulltrúi í fjárlaganefnd þegar meiri hlutinn ákveður að neita minni hluta um þær upplýsingar sem óskað er eftir til að hægt sé að taka það sem stundum er nefnt ábyrga afstöðu til þess málefnis sem um er fjallað. Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að að baki fjáraukalögum liggja beiðnir ráðuneyta sem fara á borð ríkisstjórnar sem ákveður að ekki sé hægt að verða við þeim öllum. Engu að síður sjáum við hér að velferðarráðuneytið, sem er eitt stærsta ráðuneytið og fer með mesta fjármuni, fær á milli 2. og 3. umr. 1,2 milljarða í aukafjárlög frá því sem lagt er upp með í fjárlögum einhverra hluta vegna.

Þetta ferli er umhugsunarefni, virðulegur forseti. Við leggjum fram fjárlög fyrir árið 2012. Þau eru samþykkt hér í þinginu. Nú ræðum við fjáraukalög vegna þess að fjárlögin standast ekki. Fjáraukalögin eru lögð fram til umræðu, þau breytast á milli 1. og 2. umr. og meira að segja á milli 2. og 3. umr., enn er aukið í.

Síðan, virðulegur forseti, kemur að því að ríkisreikningur liggur fyrir. Þá kemur oftar en ekki í ljós að ekki hefur heldur verið staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í fjáraukalagafrumvarpinu og enn þarf að bæta um betur.

Síðasta skrefið, virðulegur forseti, eru svo lokafjárlög árs, segjum 2012, sem hugsanlega verður fjallað um að hausti 2013 eða að hausti 2014. Og hvað gerum við þá? Þá strikum við í raun út allt þetta ferli og enginn ber ábyrgð á því, hvorki að hafa farið fram úr fjárlögum og fengið til þess aukagreiðslur í fjáraukalögum né heldur að hafa farið fram úr fjáraukalögum. Það kemur fram í ríkisreikningi vegna þess að lokafjárlögin strika þetta allt út. Allar frammúrkeyrslur eru strikaðar út í lokafjárlögum og enginn ber ábyrgð.

Virðulegur forseti. Þannig hafa hlutirnir alltaf verið en ekki er þar með sagt að við eigum ekki að reyna að taka okkur taki og breyta því. Það hefur ekki tekist. Þess vegna eru þau orð hv. formanns fjárlaganefndar um að agi og festa séu í ríkisfjármálum einfaldlega orðin tóm. Það er ekki þannig en ég vildi óska að svo væri. En ég segi: Þetta hefur verið svona fram til þessa, okkur er ekki að takast að breyta þrátt fyrir stór orð þar um.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ræddi um að minni hlutinn hefði ekki lagt fram breytingartillögur við fjáraukann og gerði ágætlega grein fyrir því af hverju. Mig langar samt að nefna eina breytingartillögu sem kemur inn á milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég sit í forsætisnefnd og reyndi að fylgja eftir óskum Alþingis um fjármuni inn í fjáraukalögin. Þar kom tvennt til. Á Alþingisreitnum eru fornminjar sem þurfti að loka nú á haustdögum og til að ljúka þeim verkefnum vantaði um það bil 17 millj. kr.

Þegar beiðni Alþingis til fjárlaganefndar var rædd kom í ljós að meiri hlutinn hugðist verða við því að veita 190 milljónir vegna rannsóknarnefnda sem farið hafa fram úr því sem þeim var ætlað á árinu eins og ekkert væri, en það var út úr korti að leggja til 17 milljónir vegna fornleifauppgraftrar og því var hafnað. Það kemur hins vegar inn nú.

Af hverju geri ég þetta að umtalsefni? Jú, vegna þess að meiri hluti fjárlaganefndar tekur þegjandi við öllum beiðnum framkvæmdarvaldsins um aukafjárveitingar í fjáraukalögum sem skipta tugum milljarða en hafnar beiðni Alþingis um 17 milljónir til að ljúka fornleifagreftri hér á svæðinu. Þetta er forgangsröðunin, þetta er áhugi meiri hluta fjárlaganefndar á sjálfstæði Alþingis og virðingu Alþingis. Þetta verklag og þetta vinnulag er með ólíkindum.

Ég er líka hugsi vegna textans í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2012, það er eiginlega með ólíkindum að lesa hann. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að fara ofan í hann.

Á bls. 83 í frumvarpi til fjáraukalaga stendur, þar sem verið er að tala um Atvinnuleysistryggingasjóð, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að útgjöld sjóðsins aukist um 791,4 millj. kr. á núverandi fjárlagaári þar sem ekki varð af aðhaldsáformum velferðarráðuneytisins sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum 2012.“

Áfram segir:

„Í öðru lagi er farið fram á 638 millj. kr. hækkun á fjárframlögum til að mæta kostnaði vegna vinnumarkaðsúrræða. Í forsendum fjárlaga 2012 láðist velferðarráðuneytinu að gera ráð fyrir útgjöldum vegna almennra starfsþjálfunarsamninga, reynsluráðninga, átaksverkefna o.fl. en áætlað er að þau verði um 300 millj. kr. á árinu.“

Síðan er hér rætt um verkefnið Vinnandi vegur . Það var þarft verkefni og meiri hlutinn og ríkisstjórnin hafa á umliðnum missirum hælt sér af því og það er í sjálfu sér allt í lagi. En í forsendum fjárlaga var ekki gert ráð fyrir átakinu og verkefninu. Og þrátt fyrir að Hagstofan hafi gert ráð fyrir að atvinnuleysi lækkaði úr 6,4% í 6% hafa útgjöldin engu að síður aukist um 338 millj. kr. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur gert hér grein fyrir ýmsum öðrum þáttum.

Á bls. 84 í frumvarpinu er efnisgrein um umsýslukostnað Vinnumálastofnunar. Þar segir:

„Lögð er til 170,7 millj. kr. hækkun á framlagi sjóðsins til að mæta umsýslukostnaði Vinnumálastofnunar.“

Samt, virðulegur forseti, er atvinnuleysi að minnka. Af hverju nefni ég þetta? Jú, vegna þess að hér kemur meiri hluti fjárlaganefndar og stærir sig af aga og festu í fjármálum. Þau orð, „agi og festa“, eiga ekki við, ekki þegar rætt er um fjármál ríkisins, hvað þá heldur fjáraukalög. Og þau hafa aldrei átt við.

Nú kann að vera að ágætur meiri hluti þingmanna og ríkisstjórnin sjálf segi: Svona hefur þetta alltaf verið. En ég gef ekkert fyrir þá skýringu að hlutirnir hafi alltaf verið svona. Við höfum rætt það margsinnis frá því að við samþykktum skýrslu þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis að við ætluðum að breyta vinnubrögðum á öllum sviðum. Við ætluðum að sýna heiðarleika og gegnsæi í öllum okkar verkum. Við erum ekki að gera það, virðulegur forseti, okkur hefur mistekist.

Frá því að við samþykktum skýrslu þingmannanefndarinnar um rannsóknarskýrslu Alþingis árið 2010 hefur okkur sem vinnum í þessum sal einfaldlega mistekist að breyta því vinnulagi sem við hétum að breyta. Það sést gleggst, virðulegur forseti, í störfum fjárlaganefndar þar sem minni hlutanum er synjað um upplýsingar sem þó eru nauðsynlegar til að hann geti tekið ábyrga afstöðu til þess verkefnis sem honum ber að vinna. Við erum ekki að gera það sem við sögðumst ætla að gera, við ætluðum að vinna af heilindum og við ætluðum að vinna að gegnsærri opinberri stjórnsýslu. Hún er ekki fyrir hendi á milli framkvæmdarvalds og fjárlaganefndar, að minnsta kosti ekki á milli framkvæmdarvaldsins annars vegar og minni hluta fjárlaganefndar hins vegar. Það er miður.

Ég ítreka enn og aftur: Ég gef ekkert fyrir þau orð sem hv. meiri hluti fjárlaganefndar notar í ræðum sínum, um aga og festu. Þau orð eiga ekki við þegar við ræðum fjáraukalögin.