141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:44]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið.

Það er kannski einmitt mergur málsins hvort Alþingi og við sem störfum hér í umboði þess, fulltrúar þingsins, eigum ekki að gera enn ríkari kröfur til okkar sjálfra og þess hvernig þingið fer fram með sína fjármuni og sín verkefni og fjárveitingar. Það er kannski best að byrja heima fyrir, eins og einhvers staðar stendur. Þess vegna nefndi ég nú þetta dæmi.

Hér falla þung orð og talað er í þeim takti að menn séu með allt niður um sig og að ekki hafi verið horft til þess sem við þurftum að læra af hruninu, að halda betur aga og festu í kringum fjármálin. Staðreyndin er hins vegar sú að allt öðruvísi er farið fram með þessi mál en var hér áður fyrr. Verulega vel hefur tekist til í þeim efnum að ná bættum árangri. Auðvitað vilja menn sjá enn frekar til lands og horfa til betri niðurstöðu, en við skulum ekki gera lítið úr því sem hefur áunnist.

Við horfum á stórfellda hlutfallslega lækkun í fjárauka frá því sem var fyrir örfáum árum. Það hefur tekist vegna þess að menn hafa reynt að ná höndum saman, hvort heldur er í ráðuneytum eða af hálfu fjárlaganefndar og þeirra sem starfa hér á þingi, um að sýna meiri aga, eftirlit og ábyrgð í því hvernig haldið er utan um fjármál ríkisins.