141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[13:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp undir þessum lið til að gera athugasemd við það að formaður fjárlaganefndar er ekki í salnum. Ég hefði talið að við þessa umræðu hefði þurft að haga málum svo hann væri í salnum og tæki þátt í umræðum. Við höfum fundið að því að skort hafi á að gögn sem beðið hafði verið um af hálfu minni hlutans hafi verið lögð fram. Við höfum fundið að því að ekki hafi verið lagt fram mat Ríkisendurskoðunar eða komið í veg fyrir að eftir því væri kallað. Ég hefði talið í það minnsta eðlilegt þegar svo er í pottinn búið að formaður nefndarinnar sæti í þingsal og tæki þátt í umræðum þannig að hægt væri að varpa til hans spurningum og fá fram sjónarmið.

Nú vil ég hafa þann fyrirvara á að það kunna að vera persónulegar ástæður fyrir því að formaður nefndarinnar getur ekki verið hér í dag og ef svo er þá dreg ég auðvitað þessi ummæli til baka, en ég hefði talið að farið hefði mun betur á því að umræðan gæti farið fram með formanninn viðstaddan.