141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[13:52]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að velta aðeins vöngum yfir því verklagi sem ég er að verða vitni að sem nýr þingmaður á Alþingi. Þetta er mín fyrsta seta hér og margt er fróðlegt og margt skemmtilegt, en einnig er að mínu viti margt athugavert við það hvernig þingið vinnur. Í það minnsta kemur ýmislegt mér nokkuð spánskt fyrir sjónir.

Ég hef tekið þátt í störfum fjárlaganefndar þessa vikuna og þar komu vissulega þær tillögur sem hér eru til umfjöllunar á borð nefndarinnar. Ég vil taka undir orð Ragnheiðar Ríkharðsdóttur þegar hún veltir fyrir sér verklagi fjárlaganefndar. Það hefur löngum verið með þeim hætti sem nú er. Ég man að einhvern tíma hef ég meira að segja komið sem gestur á fjárlaganefndarfund og þótti það athyglisvert. Ég set spurningarmerki við skilvirkni nefndarstarfa þegar til dæmis minnisblað er borið á borð hjá nefndarmönnum, þeir lesa það ítarlega yfir og síðan koma þrír gestir inn á fjárlaganefndarfundinn, ágætir fulltrúar fjárveitingavaldsins, fjármálaráðuneytisins, sem í reynd gera fátt annað en að lesa minnisblaðið allir þrír svona saman.

Þetta er ekki sagt til að kasta rýrð á störf opinberra starfsmanna heldur er ég að gagnrýna vinnulag nefndarinnar og að í raun var engu við þær upplýsingar að bæta sem þegar lágu fyrir nefndinni. Þetta er bara pínulítið sýnishorn af því sem hefur borið fyrir augu mín sem nýr þingmaður.

Ég vil nefna sem dæmi um annað undarlegt verklag og það er annað mál sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi áðan í ræðu sinni. Gerð var tillaga um að 17 milljónir yrðu veittar í fornleifarannsóknir á Alþingisreitnum til viðbótar því sem áður hefur komið fram, sem er auðvitað gott og blessað mál og nauðsynlegt að sinna þeim rannsóknum. En ég þykist vita að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir var búin að reyna að vinna þessu máli framgang en hafði ekki erindi sem erfiði í nefndinni.

Síðan er það á þriðjudag sem þingflokksformaður Vinstri grænna kemur í pontu og talar mjög skorinort um nauðsyn þess að þessir fjármunir fari inn í fjáraukalögin. Og þegar ég tek sæti í fjárlaganefnd daginn eftir er þetta orðið að tillögu meiri hluta nefndarinnar. Þetta kemur mér frekar spánskt fyrir sjónir. Það er nokkuð ljóst að það er ekki alveg sama hvaðan gott kemur, alla vega ekki ef það kemur frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd.

Annað sem mér kemur undarlega fyrir sjónir, og þetta er allt af því að maður er að skoða þingheim og læra og átta sig á því hvernig kaupin gerast á eyrinni, að ég hefði varla trúað því að það gætu verið svona fáir þingmenn í sölum Alþingis við umræðu um fjáraukalög. Fjárlög eru helsta umfjöllunarefni Alþingis og helsta ábyrgðarhlutverk þess er að setja fjárlög og þess þá heldur fjáraukalög sem kalla á enn frekari útgjöld úr ríkissjóði en þingheimur hefur samþykkt áður.

Framan af fyrir hádegisverðarhlé sátu lengi í salnum fjórir sjálfstæðismenn og einn samfylkingarmaður. Sá er af svipuðum toga og ég, í fjarveru annars þingmanns, (Gripið fram í: Nei, nú er hann orðinn alvöru.) Já, nú er hann orðinn alvöru, ég bið hv. þingmann afsökunar, hann er orðinn aðal en var lengi vara.

Nema hvað að ekki sést tangur né tetur af meiri hluta fjárlaganefndar, ég skil það ekki. Hér kemur formaður fjárlaganefndar og mælir fyrir fjáraukalögum en hann er hvergi í salnum og hefur ekki verið um alllanga hríð. Ég tek undir orð Illuga um að vissulega ef persónulegar aðstæður eru þar að völdum … (Forseti hringir.)

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmann um að ávarpa þingmenn fullu nafni og með tilhlýðilegum hætti.)

Takk fyrir, virðulegi forseti, ég mun gera það. Hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, er fjarverandi og hefur verið svo um alllangt skeið. Ég velti vöngum yfir því hvort þetta sé til marks um almennt áhugaleysi meiri hluta fjárlaganefndar á þessu stóra máli.

Framan af fyrir hádegisverðarhlé var einn ráðherra við umræðu, hæstv. iðnaðar — fjármálaráðherra. Ég er að reyna að læra öll þessi nýju nöfn upp á nýtt og gerði skyssu í ræðustóli í gær og ávarpaði ranglega hæstv. ráðherra. En hæstv. fjármálaráðherra hefur verið við umræðurnar fyrir hádegið og eftir hádegið líka og það er vel, en aðrir úr fjárlaganefnd og þeir sem eru virkilega að kynna þau gögn sem hér hafa verið unnin eru víðs fjarri.

Ég vil taka undir það með félögum mínum úr minni hluta nefndarinnar að hér er mjög áberandi skortur á upplýsingagjöf og vissulega mjög sérkennilegt að ekki skuli vera áhugi fyrir því að leita umsagnar ríkisendurskoðanda. Fyrir mér hljómar nú alltaf orðið „gegnsæi“ þegar minnst er á þá ríkisstjórn sem nú situr við völd vegna þess að það var svo oft sagt fyrir kosningar, en ég hef ekki séð þess stað í þessari vinnu að það orð sé haft að leiðarljósi, alla vega ekki í því litla sýnishorni sem ég hef fengið hér.

Örlítið um þingheim. Vissulega er það svo og vakin var athygli á því í fjölmiðlum í morgun að prófkjör standa yfir og þingmenn þurfa vissulega að sinna því, en ekki eru þó allir í því kapphlaupi og hefði verið ágætt ef bekkurinn væri örlítið þéttsetnari. Þetta vekur upp spurningar um hvort ekki sé þörf á breyttu fyrirkomulagi á þingstörfum á kosningaári þegar prófkjör eru allsráðandi og ég tala nú ekki um þegar nær dregur kosningum og þingmenn og þingmannsefni þurfa að ríða um héruð og boða fagnaðarerindið. Þá er mjög erfitt að sinna þingstörfum í leiðinni, sérstaklega fyrir þingmenn sem koma langt að. Ég mundi, ef ég mætti hvetja menn á þingi til dáða, leggja til að það yrði skoðað. Því var hvíslað að mér hér að Danir — ég hef ekki kynnt mér það sjálf — hefðu það fyrirkomulag að tveimur mánuðum fyrir kosningar væri gert hlé á þingstörfum og menn einhentu sér í kosningabaráttuna, hvort sem um væri að ræða prófkjör eða eiginlega kosningabaráttu.

Rétt í lokin langar mig til að taka undir orð hv. þm. Norðvest., Einars Kristins Guðfinnssonar, þegar hann velti upp því aukaframlagi sem lagt er til að verði veitt til Fiskistofu vegna aukinna umsvifa í tengslum við lög um veiðigjöld. Heilar fjórar stöður sem vissulega væri gott að fá í hvaða kjördæmi sem er utan Reykjavíkursvæðisins. Ég held að ekki sé þörf á fleiri opinberum störfum á þessu horni landsins en ég ímynda mér að þau væru til dæmis kærkomin vestur á fjörðum eða austur á landi, þar sem hlutfall opinberra starfa er í engu samræmi við það sem við þekkjum á höfuðborgarsvæðinu, þannig að því sé til haga haldið.

Hv. þm. Einar Kristinn spurði svo ágætlega: Er þetta nýi vaxtarbroddurinn, að auka við stöður opinberra starfsmanna í kjölfar lagasetninga?