141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

lax- og silungsveiði.

390. mál
[14:32]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við fyrri spurningunni er að þessu er ekki hægt að jafna saman að öllu leyti því að þannig eru lög okkar og réttur og stjórnarskrá að ef klár einkaeignarréttur er á landi þá fylgja honum hlunnindi með viðkomandi jörðum og lengst af, og er held ég enn, hefur það verið þannig í lögum að þau megi ekki aðskilja jörðinni og eigi að fylgja henni. Laxveiðiréttindi, silungsveiðiréttindi og veiðiréttur í vötnum og öðru slíku tengist því landi sem að liggur og um eignarhald þess fer með venjulegum hætti.

Þjóðin á á köflum talsverðan veiðirétt í þeim tilvikum þegar ríkið á jarðir eða þjóðlendur hafa verið úrskurðaðar þar sem um veiðiréttindi er að ræða, en þegar um er að ræða land í einkaeigu fer með það eins og annað sem tengist jörðunum og rétti eigenda þeirra gagnvart hlunnindanýtingu og öðru slíku. Að þessu leyti er um tvo algerlega ólíka hluti að ræða þar sem auðlindirnar í hafinu utan stórstraumsfjöruborðs og þá netalagna lúta ekki eignarréttarlegum lögmálum heldur hefur almennt verið talið að þær séu sameign þjóðarinnar þó að ganga hefði mátt betur frá því í lögum, a.m.k. framan af. Hafsbotninn er til dæmis lýstur þjóðareign í lögum og hið sama er í bígerð hvað varðar að styrkja ákvæðin um sameign þjóðarinnar á villtum fiskstofnum eða nytjastofnum hafsins.

Varðandi seinni spurninguna veit ég að Fiskræktarsjóður er enn við lýði. Hann hefur ekki úr miklum fjármunum að spila en einhverja styrki veitir hann enn til starfsemi veiðifélaga og þá aðallega í þeim tilvikum, held ég, þegar verið er að gera vatnsföll fiskgeng.