141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

lax- og silungsveiði.

390. mál
[14:35]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er gamalt og nokkuð þekkt mál í þingsölum. Svar mitt er að auðvitað eru ekki gild rök fyrir því að undanskilja starfsemi af þessu tagi skattlagningu. Hins vegar hafa menn bent á, og haft nokkuð til síns máls í því, að það að setja virðisaukaskatt á mundi koma mjög ólíkt út eftir því hverjir í hlut eiga. Menn hafa bent á ákveðin tæknileg vandamál sem þeir hafa með réttu eða röngu notað talsvert í þessari umræðu, eins og að mismunandi staða aðila eftir því hvernig eignarhaldinu er háttað á bak við veiðiréttinn, ef ég man þetta rétt, mundi valda talsvert ólíkri aðstöðu fyrir þá sem í hlut ættu. Alla vega rifjast það upp fyrir mér að í umræðunni hafi í bland verið nefndir ýmsir tæknilegir vankantar á því að leysa þetta, burt séð frá því hvað menn telja hina eðlilegu skattlagningu.

Ég tel reyndar að þörf sé á að fara yfir þetta og ýmislegt fleira sem tengist því hvernig með hlunnindi og ýmsa starfsemi sem er á mörkum atvinnurekstrar, ferðaþjónustu, afþreyingar, heimaframleiðslu, handiðnaðar, menningar og lista er farið. Það er satt best að segja allflókið og allmikið torf hvernig þessu er fyrir komið í virðisaukaskattskerfinu og alls ekki alltaf samkvæmni í því hvernig úr þeim hlutum er leyst.

Ég get vel fallist á að ástæða geti verið til að fara yfir þetta en nú er það ekki í mínum höndum sérstaklega. Það vill svo vel til að fjármála- og efnahagsráðherra situr hér í salnum og það er auðvitað hún sem fer með skattamál nú um stundir. Auðvitað mundum við hafa á því áhuga og fylgjast með eða vera með í slíku ef þetta yrði enn á ný fært í skoðun. (Forseti hringir.) Þetta mál hefur iðulega komið upp hér á undangengnum árum í alls konar umræðum.