141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

opinber innkaup.

288. mál
[14:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Frumvarp um sama efni var lagt fram á síðasta þingi en fékk ekki afgreiðslu. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér innleiðingu á tilskipun 2007/66/EB er varðar aukna skilvirkni í meðferð kærumála á sviði opinberra innkaupa. Miða breytingar frumvarpsins að því að auka réttarvernd hagsmunaaðila við meðferð kærumála á sviði opinberra innkaupa. Þá er í frumvarpinu að finna tillögur um breytingar sem miða að því að gera framkvæmd opinberra innkaupa skýrari en nú er. Loks er lagt til að innlendar viðmiðunarfjárhæðir við verklegar framkvæmdir hækki.

Samkvæmt gildandi lögum verður samningur um opinber innkaup ekki felldur úr gildi eftir að hann hefur verið gerður, jafnvel þótt ákvörðun kaupanda um gerð samningsins hafi brotið gegn reglum um opinber innkaup. Að baki þessari reglu liggur það viðhorf að hagsmunir samningsaðila mæli almennt gegn því að samningar séu felldir úr gildi við þessar aðstæður. Aftur á móti séu hagsmunir brotaþola nægilega tryggðir með skaðabótum.

Með tilskipuninni sem frumvarpinu er ætlað að innleiða verður áherslubreyting að þessu leyti. Tilskipunin byggir á því grunnviðhorfi að fyrirtæki skuli eiga þess kost að fá skorið úr um lögmæti innkaupaákvarðana áður en þær koma til framkvæmda með þeim afleiðingum að mögulegt verði að fá þær felldar úr gildi. Til að tryggja að þessum markmiðum verði náð er í frumvarpinu að finna ákvæði um biðtíma við gerð samninga, eftir að tilboð hefur verið valið, og reglur um sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna kæru um val á tilboði. Með þessu er kaupanda skylt að láta ákveðinn tíma líða á milli vals tilboðs og eiginlegrar samningsgerðar. Kæra innan biðtíma leiðir til sjálfkrafa stöðvunar á samningsgerð þar til kærunefnd útboðsmála hefur fjallað um kæru

Núgildandi lög um opinber innkaup hafa þegar að geyma ákvæði um biðtíma sem að meginstefnu svara til ákvæða tilskipunarinnar. Hér er um að ræða óverulegar efnislegar breytingar. Hins vegar felur sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar í sér breytingar á málsmeðferðarreglum frá því sem nú er.

Annað nýmæli í frumvarpinu er ákvæði um óvirkni. Á grundvelli þess getur kærunefnd útboðsmála lýst samning óvirkan ef hann hefur að mati nefndarinnar verið gerður í andstöðu við tiltekin ákvæði laga um opinber innkaup. Hægt verður að beita ákvæði um óvirkni á samninga sem gerðir hafa verið heimildarlaust án auglýsingar, samninga sem gerðir hafa verið á biðtíma samningsgerðar og samninga sem gerðir hafa verið á meðan stöðvun samningsgerðar stendur og kærunefnd útboðsmála fjallar um málið. Óvirkni er nýtt réttarúrræði sem er sérsniðið að opinberum innkaupum og er ætlað að hafa sambærileg áhrif og ógilding samnings, enda þótt samningur haldi formlega gildi sínu.

Þriðja nýmælið varðar reglur um „önnur viðurlög“ sem beint er gegn alvarlegum brotum þar sem óvirkni kemur af einhverjum ástæðum ekki til greina, að hluta eða í heild, t.d. vegna opinberra hagsmuna. Hér er lögð til sú meginregla að við tilteknar aðstæður sé skylt að beita öðrum viðurlögum sem geta annaðhvort verið stjórnvaldssektir eða stytting samnings. Öll framangreind nýmæli frumvarpsins eiga að tryggja að þegar alvarleg brot á reglum um opinber innkaup eiga sér stað leiði það til verulega neikvæðra afleiðinga fyrir kaupanda, ef ekki með óvirkni samnings þá með öðrum viðurlögum sem hafa viðhlítandi varnaðaráhrif.

Fram til þessa hefur þeirri stefnu verið fylgt að í meginatriðum gildi sömu reglur um innkaup yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum og yfir viðmiðunarfjárhæðum EES. Í samræmi við það gerir frumvarpið ráð fyrir því að reglur er varða biðtíma og sjálfvirka stöðvun við kæru gildi um öll innkaup án tillits til fjárhæðar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að reglur um óvirkni og önnur úrræði við brotum á reglum um opinber innkaup gildi um innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES. Að því leyti er tilskipunin ekki innleidd í víðtækari mæli en leiðir af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Þau réttarúrræði sem nú þegar eru til staðar í lögunum verða þó enn í gildi fyrir innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES. Með þessu er vikið frá fyrri stefnumörkun um að hafa eitt einsleitt regluverk sem ekki gerir upp á milli innkaupa yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum annars vegar og yfir viðmiðunarfjárhæðum EES hins vegar.

Sú lagastefna sem liggur til grundvallar frumvarpinu byggist á því að það réttarvörslukerfi sem þegar hefur verið komið á fót sé þróað áfram og styrkt með hliðsjón af ákvæðum tilskipunarinnar. Í þessu felst einkum að réttarvarsla á sviði opinberra innkaupa mun áfram verða í höndum kærunefndar útboðsmála, þó þannig að almennir dómstólar gegna veigamiklu hlutverki. Hin nýju úrræði, þ.e. varðandi óvirkni og önnur viðurlög, verða því í höndum kærunefndar. Ákvörðunum kærunefndar má skjóta til dómstóla sem eiga með þeim hætti síðasta orðið um túlkun réttarreglna um opinber innkaup. Kærunefndin fjallar hins vegar ekki um fjárhæð bótakrafna og er það því áfram verkefni dómstóla að úrskurða um skaðabætur.

Þau nýju úrræði sem felast í frumvarpinu ættu að leiða til þess að úrskurðir kærunefndar útboðsmála hafi meiri áhrif á hagsmuni fyrirtækja og kaupenda, sem og hins opinbera almennt, en verið hefur. Gera má ráð fyrir að þessar breytingar leiði til aukins álags á nefndina. Með vísan til þess er mikilvægt að styrkja málsmeðferð og starfsemi kærunefndar útboðsmála. Í frumvarpinu er sú breyting lögð til að tveir nefndarmanna skuli uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara, en í dag er hún skipuð einum sem uppfyllir þau skilyrði og tveimur sérfræðingum með alhliða viðskiptaþekkingu.

Þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi auka valdheimildir kærunefndar og mun nefndin, verði frumvarpið að lögum, hafa heimildir til að kveða á um sektir og óvirkni samninga. Umfjöllun og úrskurður um sektir og óvirkni samninga eru flókin lögfræðileg úrlausnarefni og í ljósi þess er talið æskilegt að meiri hluti nefndarinnar sé skipaður sérfræðingum sem uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara. Í frumvarpinu er einnig leitast við að ná þessu markmiði með heimildum til að skipa kærunefnd fimm manna í sérlega mikilvægum málum og með heimild nefndarinnar til að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Frumvarpið felur í sér það nýmæli að gert er ráð fyrir að ráðherra eigi kærurétt vegna alvarlegra brota á reglum um opinber innkaup. Í ljósi þess eru lagðar til breytingar á tilnefningu í kærunefnd útboðsmála sem felast í því að Hæstiréttur tilnefni nefndarmenn, en í dag er skipan í nefndina að fullu á forræði ráðherra.

Í frumvarpinu er tekinn af vafi um að kærunefnd útboðsmála hafi heimild til að leggja lögbann við ákvörðunum sem brjóta muni gegn úrskurði kærunefndar. Þá er lagt til að kveðið verði á um að kærunefnd útboðsmála beri ekki að úrskurða um innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu enda falla innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarmörkum EES ekki undir lögin. Þá er lagt til að kærugjald til nefndarinnar hækki úr 50 þús. kr. í 150 þús. kr.

Í frumvarpinu er einnig að finna tillögur um breytingar á tilteknum ákvæðum laganna með það að markmiði að skýra og styrkja núverandi framkvæmd betur. Þannig er ákvæði um skilyrði fyrir framlengingu á tilboðsfresti skýrt og aðlagað að reglum sem verið hafa í framkvæmd. Heimild kærunefndar útboðsmála til stöðvunar innkaupaferlis um stundarsakir er rýmkuð er varðar kærur er snúa að öðrum ákvörðunum kaupanda en ákvörðunum um val tilboðs. Þá er lagt til að heimildarákvæði um að hægt sé að krefjast þess í útboðsgögnum að bjóðandi upplýsi hvaða hluta samnings hann hyggst láta undirverktaka framkvæma verði breytt í skylduákvæði.

Lagðar eru til breytingar á ákvæði laganna um gerviverktöku til að leggja áherslu á mikilvægi þess að óheimilt sé að gera samning um undirverktöku við einstaka starfsmenn þar sem ráðningarsamband sé til staðar.

Að lokum er lögð til breyting á innlendum viðmiðunarfjárhæðum á útboðsskyldu við verklegar framkvæmdir, þannig að útboðsskyldan hækki úr 13,6 millj. kr. í 28 millj. kr. Tillaga að þessari hækkun er gerð þar sem mun flóknara og tímafrekara er að skilgreina og útbúa útboðsgögn vegna verklegra framkvæmda en staðlaðra vöru- og þjónustukaupa. Jafnframt er ekki talin þörf á því að lítil verk þurfi sömu formfestu og undirbúningskostnað og stærri verk.

Við undirbúning frumvarpsins var það kynnt fyrir flestum þeim aðilum sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta á þessu sviði. Ýmsar ábendingar og tillögur voru settar fram af hálfu þessara aðila og var leitast við að taka tillit til þeirra eins og mögulegt var. Þær breytingar á lögum um opinber innkaup sem lagðar eru til í frumvarpinu felast einkum í því að réttarvernd vegna brota á lögum um opinber innkaup er aukin. Með þessu eru skapaðar betri aðstæður fyrir virka samkeppni sem stuðla að skynsamlegri meðferð almannafjár við opinber innkaup. Opinber innkaup eru stór hluti af útgjöldum hins opinbera og því mikilvægt að lögum og reglum sé fylgt í hvívetna.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.