141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég hef staðið með honum í því að reyna að koma til leiðar frekari árangri í að lækka húshitun á köldum svæðum enda skil ég þann vanda mjög vel. Ég furðaði mig hins vegar á því þegar ég hlustaði á hv. þingmann og hugsaði til þess hvernig stæði á því að svo lítið hefði þokast í því máli meðan nægir peningar voru til.

Við höfum hins vegar verið í þeirri stöðu núna frá hruni að ekki eru nægir peningar til nokkurs hlutar. Þó er verið að stíga skref núna með þeirri lagabreytingu sem gerð hefur verið af hálfu stjórnvalda til að lækka húshitunarkostnað. En eins og hv. þingmaður bendir réttilega á ná þær aðgerðir sem grípa þarf til einungis til um 10% landsmanna og þar af leiðandi ætti það að vera viðráðanlegt verkefni að jafna stöðu landsmanna hvað þetta varðar. Um það er enginn ágreiningur við mig og ég styð að það verði gert. Ég á eftir að kynna mér betur og vera viðstödd umfjöllun um frumvarpið í hv. atvinnuveganefnd sem mun taka málið til umfjöllunar.

Vera kann að þær leiðir sem hér eru lagðar til séu árangursríkar og muni kannski ekki hafa í för með sér það mikinn tilkostnað að hafa þurfi áhyggjur af því. Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því að við erum á erfiðum tímum núna hvað varðar rekstrarstöðu ríkissjóðs. Ríkissjóður er enn rekinn með halla þó svo að sá halli hafi verið lækkaður á síðustu fjórum árum úr 200 milljörðum í um 40–60 milljarða. Við erum í þrengra búi núna en við höfum verið um langt árabil meðal annars á þeim tíma sem hv. þingmaður hafði öll tök á því að beita sér með virkari hætti til að jafna húshitunarkostnað landsmanna, enda var hann ráðherra í ríkisstjórnum sem sátu á góðæristímanum.