141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður er að rifja upp ráðherratíma minn þá náði sá ráðherratími til áranna 2007 og 2008. Hér inni situr reyndar hæstv. fyrrverandi ráðherra úr þeirri ríkisstjórn líka. Þá voru niðurgreiðslurnar 500–600 millj. kr. hærri að raungildi en þær eru í dag (Gripið fram í.) og það skiptir mjög miklu. (Gripið fram í.) Þess vegna er ég að segja það hv. þingmaður að það var auðvitað árangur. Ég var hins vegar aldrei að segja að það hefði verið nægjanlegur árangur. Það sem ég hef komist að niðurstöðu um með sjálfum mér og hef verið að setja það fram í þingmáli er að þetta völubein er mjög valt. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að stundum gengur vel og stundum gengur illa í þjóðarbúskapnum. Stundum gengur vel og stundum gengur illa að ná peningum úr ríkissjóði til þessa verkefnis. Það er reynsla mín af því. Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki haft áhuga á þessu. Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki reynt að leggja mig fram í þeim efnum og mjög margir hafa gert það sömuleiðis. En það er við stóran að deila eins og við vitum þegar kemur að skiptingu ríkisútgjaldanna.

Niðurstaða mín í þessu máli er og var — sem ég hélt að væri niðurstaða hv. þingmanns líka af því að við fluttum um þetta sameiginlega þingsályktunartillögu — að við þyrftum að koma þessu í fastari skorður. Það þyrfti að búa til einhvern mekanisma sem gerði það að verkum að við hefðum fast land undir fótum. Ég tel að þær tillögur sem ríkisstjórnarnefndin skilaði af sér hafi einmitt verið í þeim anda og ég trúði því og hélt að um þetta gætum við náð saman á þinginu án þess að um það yrði neinn stórpólitískur ágreiningur. Málið var undirbúið þannig af ríkisstjórninni og ég vil hæla henni fyrir það. Þess vegna voru það mér mikil vonbrigði að frumvarpið kæmi ekki fram í haust. Og er þá ekki eðlilegt að þingmenn bregðist við sem hafa þá skoðun? Ég veit að ég er fráleitt einn um þá skoðun, við mörg erum mjög sammála um þetta og við tökum þá bara ómakið af henni og leggjum málið fram. Það er þá alla vega innlegg inn í umræðuna. Ef menn finna betri leiðir þá finna menn betri leiðir en þetta er þó viðleitni af okkar hálfu, (Forseti hringir.) fjórtánmenninganna sem stöndum að þessu. Ég er viss um að mjög margir eru sammála okkur um að reyna að ná árangri með þessum hætti.