141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel þetta fróðlegar upplýsingar sem hv. þingmaður veitir hér. Til að það sé alveg ljóst þá er mín skoðun sú að við eigum að fara að veiða ref. Ég vil gjarnan fá að vita hvort hv. þingmaður hafi innt hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvernig hún sjái þróun refastofnsins fyrir sér miðað við óbreytt ástand. Árið 2007 var stofninn í kringum 10 þús. dýr, hann er örugglega kominn í 12–13 þús. dýr núna. Hvernig sér umhverfisráðherra fyrir sér framtíðina og áhrifin á náttúruna árið 2020 þegar refastofninn verður hugsanlega kominn upp í 16–18 þús. dýr? Hvaða áhrif hefur það á rjúpuna eða aðrar fuglategundir?

Mér finnst liggja á að þetta mál fái afgreiðslu. Verði það afgreitt munum við að sjálfsögðu haga veiðunum eins og við höfum gert, hvort sem er í hvalveiðum eða fiskveiðum, við höfum ávallt byggt veiðar okkar í náttúrunni á sjálfbærni og skynsamlegri nýtingu. Eins og ég skil hv. þingmann verður engin breyting á því. En það er ekki hægt að horfa upp á gegndarlausa fjölgun refsins sem hefur í för með sér gríðarlegt tjón á fuglalífi, en ekki síður á eignum og náttúru landsins. Það er mín skoðun.

Ég hvet því hæstv. eða hv. þingmann, sem hugsanlega verður einhvern tímann hæstvirtur, að veita umhverfisráðherra aðhald í þessu máli sem er sett fram af rökhyggju og skynsemi. Ég get ekki sagt að það sé hægt að taka undir þær ákvarðanir sem tengjast meðal annars rjúpnaveiðum meðan þessi stóri þáttur er látinn eftir alveg ósnertur.