141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað upp í örstutt andsvar í þessu máli, um breytta framtíðarskipan refaveiða á Íslandi, sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur mælt fyrir. Ég tek fullkomlega undir það með hv. þingmanni, um það ástand sem nú er hvað varðar refaveiðar og að halda ref í útbreiðslu og fjölda refa í skefjum, að mikilvægt sé að kafa ofan í þessi mál til að vita hvernig megi ná betri árangri.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þessi mál eru skipulagslaus núna. Við sem erum fædd og alin upp í sveit vitum alveg hvað refum getur fjölgað hratt á ákveðnum svæðum við tilteknar aðstæður og haft staðbundin áhrif á annað líf, t.d. fugla sem hérna hefur verið rakið en líka á búpening eins og lömb. Við þekkjum þetta. Við vitum að refurinn verður að vera í ákveðnu jafnvægi við önnur dýr í lífríkinu. Við þekkjum líka þau staðbundnu áhrif og skaðann sem refurinn getur valdið. Þess vegna verður þetta að vera undir ákveðinni stjórn. Við berum mikla virðingu fyrir refnum sem dýri sem hefur frá upphafi barist við óblíða náttúru Íslands með þjóðinni.

Ég spyr hv. þingmann: Liggja ekki fyrir rannsóknir um stærð refastofnsins? Hvernig er fylgt eftir (Forseti hringir.) rannsóknum og eftirliti með því hvernig refastofninn er að vaxa eða breiðast út?