141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir margt í máli hans og er ánægður með að hann lýsi hér óbeint stuðningi við þessa þingsályktunartillögu. Þegar kemur að stofnstærð refsins liggja fyrir rannsóknir í því efni, t.d. hefur Melrakkasetrið í Súðavík fjallað um það. Það sem ég gat hins vegar fundið í gögnum um þetta voru aðeins rannsóknir eftir dr. Pál Hersteinsson sem stundaði rannsóknir á íslenska refnum í áratugi. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið 15. desember 2010 að íslenski refastofninn hefði verið um þúsund dýr þegar hann var í lágmarki á árunum 1973–1975. Árið 2007 mætti áætla að stofninn hefði samkvæmt hans athugunum og rannsóknum verið um 10 þús. dýr og hefði því tífaldast á 30 árum.

Við getum leitt líkur að því að frá árinu 2007, á fimm árum, hafi stofnstærðin stækkað með sambærilegum hætti og sé jafnvel kominn í 10–12 þús. dýr því að ekki hafa verið stundaðar miklar refaveiðar. Það hefur ekki verið gott skipulag á þessu máli frá 2007, eins og hv. þingmaður þekkir. Allt bendir til þess að refastofninn sé enn að vaxa. Maður sér það bara á dýrbitnu fé. Það sést líka á því hversu mikið sést af ref og hversu nærri hann er kominn mannabyggðum. Hann er víða farinn að ganga alveg heim að bæjum.

Ákveðnar (Forseti hringir.) rannsóknir l iggja fyrir og það þarf í rauninni ekkert nema koma þessari vinnu af stað (Forseti hringir.) og stefna að því að stofnstærð refsins verði í kringum 7.500 dýr.