141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma hér upp í andsvar og þakka hv. þingmanni fyrir þessa mjög svo góðu ræðu. Ég veit að við erum miklir bandamenn í þessu máli. Ég ætla að taka upp boltann þar sem hv. þingmaður skildi við hann, en hann talaði um að hæstv. umhverfisráðherra hefði greinilega ekki þekkingu á þessu máli þar sem hún segði þetta ekki vera vandamál. Svo virðist sem hæstv. umhverfisráðherra sitji í þessu máli í háum fílabeinsturni og sjái ekki refina úr þeim turni. Það finnst manni vera svolítið raunin með umhverfisráðuneytið og hæstv. ráðherra þar fremstan í flokki, það skortir gríðarlega á þekkingu eða vilja til að setja sig inn í það sem er að gerast.

Hv. þingmaður kom inn á frétt frá því í sumar um hvað stofnstærðin hefði vaxið. Ég kom inn á eldri rannsóknir sem sýna hið sama. Við fáum fréttir af því, eins og hv. þingmaður minntist á, að fuglum hafi fækkað. Fréttum af dýrbitnu fé er að fjölga og við höfum séð ógeðfelldar myndir af því. Hv. þingmaður kom vel inn á það í máli sínu, sem er hárrétt, að eftir óveðrið í haust lærir refurinn að ganga í lifandi fé, bíta lifandi fé og situr síðan á hlaðborði allan veturinn í þeim ám sem fennti yfir. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þeir refir muni síðan kenna yrðlingum næsta vor að haga sér eins. Þannig gerist þetta hjá þessum skepnum.

Það sem mig langaði að velta upp við hv. þingmann, af því að nú hefur hv. þingmaður meiri þingreynslu en sá sem hér stendur, er hvað hann telji valda þessu gríðarlega skilningsleysi (Forseti hringir.) á málinu í umhverfisráðuneytinu, hjá hæstv. umhverfisráðherra og embættismönnum umhverfisráðuneytisins. Hvað telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að valdi þessu skilningsleysi? Hefur hann fundið fyrir því í gegnum tíðina?