141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni.

395. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr):

Forseti. Ég var að kíkja á fréttirnar áðan og þá kom í ljós að tvær manneskjur hafa kveikt í sér í dag í Tíbet. Það var ung stúlka eða kona, 23ja ára gömul, og táningur. Það þýðir að því miður hefur aukist við tölfræðina sem ég kem til með að rekja hér á eftir. Það virðist sem það örþrifaráð að kveikja í sér til þess að vekja athygli á ástandinu í Tíbet sé að verða að daglegum viðburði þó svo að lítið sé fjallað um það í fjölmiðlum.

Ég ætla að lesa upp tillögu til þingsályktunar um framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni. Meðflutningsmenn með mér í þessari þingsályktun eru Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Björn Valur Gíslason, Mörður Árnason, Þráinn Bertelsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Mósesdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Skúli Helgason, Björgvin G. Sigurðsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Guðmundur Steingrímsson. Mig langar að þakka þeim öllum sérstaklega fyrir að vera með í þessu mikilvæga máli sem fær allt of litla athygli bæði hérlendis og annars staðar:

Alþingi ályktar að lýsa yfir þungum áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni og hvetur til að endurmenntunarþvingunum verði hætt tafarlaust en þær hafa meðal annars leitt til þess að 63 Tíbetar hafa kveikt í sér í örvæntingu síðan í mars 2011. Því miður hefur þessi tala hækkað og í kringum 70 Tíbetar hafa kveikt í sér síðan í mars 2011. Það liggur ekki fyrir hve margir þeirra hafa látist en í þessum texta stendur: Létust 53 þeirra ýmist í logunum eða síðar af sárum sínum.

Alþingi fordæmir vaxandi hörku gagnvart friðsamlegum mótmælum í Tíbet undanfarna mánuði þar sem fjölmargir mótmælendur hafa verið myrtir og særðir lífshættulega.

Alþingi hvetur kínversk yfirvöld til að aflétta herkví í Tíbet og til að hleypa alþjóðafjölmiðlum og alþjóðamannréttindasamtökum hindrunarlaust og án afskipta inn í landið.

Alþingi hvetur Sameinuðu þjóðirnar til að senda sendinefnd til að kanna mannréttindabrot í Tíbet og til að beita sér fyrir því að kínversk yfirvöld hefji opinberar friðar- og samningsviðræður við sérstaka sendinefnd Dalai Lama.

Alþingi hvetur íslensk stjórnvöld til að bjóða að vettvangur friðarviðræðnanna verði hérlendis, t.d. í Höfða.

Ég held að sú hugmynd að hefja friðarviðræðurnar fyrir utan Kína sé mjög mikilvæg til að koma þessum viðræðum aftur á. Mikið hefur verið reynt af sérstakri sendinefnd Dalai Lama að fá fund með kínverskum yfirvöldum og ekki gengið. Ég held þess vegna að það sé kjörið að við sem smáþjóð beitum okkur fyrir því að stuðla að friði í heiminum og að meiri mannúð og mannréttindum.

Ég nefndi þessa tillögu við framkvæmdastjóra mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, hvað henni fyndist um þessa hugmynd. Það eru svona tvö ár síðan ég nefndi þetta við hana. Henni fannst það mjög góð hugmynd og sérstaklega í ljósi sögunnar, hvað ákveðinn fundur á milli Gorbatsjovs og Reagans í Höfða hafði mikil áhrif á heimssöguna. Út af þeim samræðum sem áttu sér stað þar búum við fyrir vikið í aðeins betri heimi.

Mig langar að snúa mér aftur að Tíbet. Ég var að lesa mér aðeins til um þetta til að sjá hvort eitthvað nýtt hefði gerst. Ég var að vonast til þess og bind miklar vonir við að ný stjórnvöld í Kína muni vera tilbúnari til þess að hverfa frá þeirri ömurlegu stefnu sem hefur verið viðloðandi Tíbet mjög lengi og hefur verið meginástæða þess að sjálfsíkveikjur eru því miður orðnar að daglegum viðburði þar.

Mig langar að vitna í orð ungs manns sem kveikti í sér fyrir nokkrum dögum síðan. Þessi ungi maður hét Nyingkar Tash. Ég hef lesið síðustu orð mjög margra sem hafa gripið til þessa örþrifaráðs en hans síðustu orð voru þessi:

Ég kveiki í mér til að mótmæla kínverskum yfirvöldum. 6 millj. Tíbeta vilja frelsi fyrir Tíbet, sjálfstæði fyrir Tíbet, frelsi til að læra tungumálið okkar, frelsi til að tala móðurmálið okkar. Við Tíbetar krefjumst þess að Panchen Lama verði látinn laus og hans heilagleiki Dalai Lama fái að koma til Tíbet.

Það er nefnilega það. Tíbetar mega ekki tala tíbesku í Tíbet. Ég skora á alla þá Íslendinga sem berjast mikið fyrir því að við fáum að tala og rækta tungumálið okkar til þess að gera sér grein fyrir hvernig það er að búa í sínu eigin landi og mega ekki læra eða tala tungumálið sitt.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu stendur:

Fjölmörg þjóðþing hafa ályktað um síversnandi ástand í Tíbet undanfarið, þar á meðal bandaríska, ítalska og japanska þingið sem og Evrópuþingið. Þá hafa tólf handhafar friðarverðlauna Nóbels, þar á meðal Desmond M. Tutu og Lech Walesa, sent frá sér bréf til forseta kínverska alþýðulýðveldisins, Hu Jintao, þar sem hann er eindregið hvattur til að halda áfram friðarviðræðunum við fulltrúa tíbesku þjóðarinnar. Eins og fram hefur komið hefur það ekki gerst í langan tíma og mér finnst full ástæða til þess að við beitum okkur fyrir því að svo verði.

Herseta kínverskra yfirvalda í Tíbet hefur staðið í sextíu ár og á þeim tíma hefur ríkisstjórn alþýðulýðveldisins Kína innleitt miskunnarlausa stefnu aðlögunar og kúgunar. Mannréttindi eru markvisst fótum troðin gagnvart Tíbetum: Þeir eru sviptir öllum rétti til pólitísks frelsis, að tala sitt eigið tungumál og iðka þjóðmenningu sína. Ekkert raunverulegt trúfrelsi er í Tíbet. Það er til að mynda refsivert að eiga ljósmynd af Dalai Lama. Tíbetum er kerfisbundið haldið frá atvinnustarfsemi, atvinnutækifærum og aðgengi að menntun vegna þjóðernis. Tíbeska þjóðin vex ekki eins og aðrar þjóðir heldur hefur fjöldi Tíbeta staðið í stað um langa hríð. Tíbeska þjóðin er orðin að minni hluta í sínu eigin landi. Eina leiðin til að viðhalda þjóðmenningu þessarar merku þjóðar er í útlegð. En blæbrigði tungumálsins, sögur og söngvar fjara út dag frá degi.

Flutningsmenn hafa áhyggjur af grófum mannréttindabrotum gagnvart Tíbetum, eins og t.d. þvinguðum ófrjósemisaðgerðum á tíbeskum konum, nauðungarflutningum hirðingja af hjarðlandi í einangrunarbúðir, kerfisbundinni afneitun á rétti munka og nunna til að iðka trú sína án afskipta, pyntingum og morðum á föngum. Þá er brýnt að Sameinuðu þjóðirnar sendi sérstaka sendinefnd til Tíbet til að kanna meðal annars hvað varð um þá sem hurfu í tengslum við handtökur á þátttakendum í mótmælaaðgerðum árið 2008.

Sjálfsíkveikjurnar, sem eru því miður að aukast, sýna gríðarlega örvæntingu. Fram hefur komið ítrekað að litið er á þær sem einu leiðina til að vekja athygli á síversnandi ástandinu og algeru fálæti heimsbyggðarinnar gagnvart hljóðlátri en markvissri útrýmingu þjóðar og þjóðareinkenna Tíbeta. Í sextíu ár hefur heimurinn horft fram hjá mannréttindabrotum í Tíbet gagnvart tíbesku þjóðinni. Nú höfum við Íslendingar kjörið tækifæri til að sýna fram á að barátta þessarar merku þjóðar hefur náð eyrum okkar og að við bregðumst í orði og í verki við ákalli hennar.

Ekki verður annað ráðið en að kínversk yfirvöld standi fyrir skipulegri útrýmingu á tíbesku þjóðinni og menningu hennar. Í því máli telja flutningsmenn að Alþingi beri að taka afstöðu, sér í lagi vegna þess að hingað koma í heimsóknir æðstu embættismenn kínverska alþýðulýðveldisins með reglulegu millibili.

Ég á því láni að fagna að hafa verið valin til að vera í vinnuhóp, alþjóðasambandi þingmanna, sem lætur sig málefni Tíbets varða og hef fengið tækifæri til þess að hitta bæði Dalai Lama nokkrum sinnum, forseta tíbeska útlagaþingsins og nýskipaðan forsætisráðherra tíbesku þjóðarinnar í útlegð. Það er alveg magnað að fá að kynnast því sérstaka fólki og ég hef fengið að kynnast mörgum Tíbetum. Það eru því miður bara fimm Tíbetar á Íslandi en ég hef fengið að kynnast þeim öllum.

Það er svo átakanlegt að horfa á það á hverjum einasta degi að þeirri friðsælu þjóð sem átti engin vopn og vildi ekki bera vopn er markvisst útrýmt menningarlega og núna líka í tölum. Það að engin þjóð þori að setja kínverskum yfirvöldum stólinn fyrir dyrnar finnst mér svo mikill aumingjaskapur af því að við vanvirðum ekki kínversk yfirvöld með því að benda á að við líðum ekki mannréttindabrot af þessu tagi. Við vanvirðum þau ekki með því að krefjast þess að Sameinuðu þjóðirnar fái að fara inn í Tíbet til þess að kanna ástandið. Við vanvirðum þau ekki með því að fara fram á að fá að vita hvað er í gangi þarna og við vanvirðum ekki nokkurn einasta mann eða þjóð með því að benda þeim á að ef við eigum að eiga í einhverjum samskiptum þarf að viðurkenna hvernig ástandið er.

Það er hreinlega kjánalegt að hlusta á þá. Meira að segja í dag halda þeir áfram að segja að ástæðan fyrir því að fólk sé í örvæntingu að kveikja í sér í Tíbet sé vegna þess að Dalai Lama vilji það. Ég get sagt það hér og nú að hvorki Dalai Lama né nokkur Tíbeti vill að svona sé komið fyrir þjóðinni, að fólk sé að kveikja í sér, og þaðan af síður á að láta sér detta í hug að Dalai Lama vilji að fólk kveiki í sér. Þetta eru svo kjánaleg rök, þau eru rök rökþrota þjóðar.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að fólk láti sig ekki þessi mál varða. Ég vonast til þess að við höfum hugrekki til að afgreiða þingsályktunartillöguna og að ég geti flutt Dalai Lama og útlagastjórninni þau góðu tíðindi að þetta verði afgreitt í þinginu. Mér finnst kannski að mestu máli skipti í tillögunni að við beitum okkur fyrir því að ræða um málefni Tíbets við kínversk yfirvöld þegar þau ber hér að garði og að við bjóðum þeim að nýta Höfða eða einhvern annan stað á Íslandi sem vettvang fyrir áframhaldandi friðarviðræður á milli Tíbet og Kína. Ég held að það sé enginn skaði skeður með því að gera það.

Nú hafa sumir þingmenn hér og fyrrverandi ráðherrar sýnt fádæma hugrekki miðað við aðra þjóðhöfðingja með því að þora að tala um málefni Tíbets í Kína. Ég vil enn og aftur hrósa hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að hafa gert nákvæmlega það þegar hann var viðskiptaráðherra. Þegar honum var boðið af kollega sínum að ræða um viðskipti í Kína gerði hann það, ræddi um málefni Tíbet. Hann fékk margra klukkutíma skammarræðu frá gestgjöfum sínum í Kína.

Ég mundi vilja skora á íslenska þingmenn, og er tilbúin til þess að aðstoða við það, við hreinlega óskum eftir því að fá að fara í heimsókn til Tíbet til þess að kanna ástandið þar sjálf eða hvetjum íslenska blaðamenn til þess að fara og kanna ástandið. Ég vona það virkilega heitt og innilega að heimsbyggðin fari að hlusta á ákallið um hjálp frá Tíbet. Þetta er einhvern veginn eins og Nancy Pelosi sagði í yfirlýsingu. Ég þarf að segja þetta á ensku, með leyfi forseta, þetta er illþýðanlegt. Hún kallaði versnandi ástand í Tíbet „a challenge to the conscience of the world“. Þar er ég henni sammála.