141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi.

52. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi. Þetta mál er flutt af 22 þingmönnum. Um málið er góð þverpólitísk samstaða því að flutningsmenn koma úr öllum þingflokkum og að auki eru meðal flutningsmanna þingmenn utan flokka.

Efni þessarar tillögu er í stuttu máli að fela hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti sem við höfum sem þjóð til framtíðar. Jafnframt verði lögð drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku og mótuð stefna um framgang tækniþróunar á þessu sviði. Þá verði kannaðar leiðir til að Ísland geti orðið fullgildur aðili að alþjóðlegu samstarfi um nýtingu sjávarorku í nánustu framtíð. Lagt er til að ráðherra skipi starfshóp sem skili tillögum í þessa veru eigi síðar en 1. maí 2013.

Þessi tillaga er nú lögð fram í þriðja sinn og í greinargerð hennar eru ítarlegar upplýsingar um virkjun sjávarorku í löndunum í kringum okkur, ekki síst á Bretlandseyjum, vísbendingar um nýtingarmöguleika á Íslandi, umfjöllun um mismunandi tegundir sjávarorku, sérstakur kafli um strandvirkjanir sem ætla má að gætu haft mesta þýðingu fyrir Ísland í framtíðinni og sömuleiðis reifað mikilvægi þess að byggja upp gagnagrunn og tryggja aðkomu Íslendinga að alþjóðasamstarfi á þessu sviði.

Ég tel ekki þörf á að fara í smáatriðum í gegnum þessi atriði hér en vil nota þennan tíma til að reifa stuttlega nýjustu tíðindi sem tengjast rannsóknum og þróunarstarfi innlendra aðila á þessu sviði. Þar má nefna að verið er að þróa nokkrar gerðir af hverflum á vegum fyrirtækisins Valorku ehf., þar með talin sjávarfallahverfil sem ætlaður er til nýtingar hægstrauma utan fjarða. Þessi hverfill hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni alþjóðasamtaka uppfinningafélaga árið 2011. Kerprófanir hafa staðið yfir á honum og fyrstu niðurstöður lofa góðu. Smíði hans er að mestu lokið og er ætlunin að prófa hann í Hornafirði næsta sumar en þar eru aðstæður sérstaklega góðar til prófana á sjávarvirkjunum. Þetta mun vera fyrsta tilraun hérlendis sem miðar að því að vinna raforku í sjó.

Jafnframt er verið að vinna að umsókn til Evrópusambandsins um IPA-styrk til að fjármagna samstarfsverkefni um rannsóknir á sjávarorku. Þar koma að Hafrannsóknastofnun, fyrrnefnt fyrirtæki Valorka ehf. og Sveitarfélagið Hornafjörður. Verkefnið er tvíþætt. Meginþátturinn snýr að rannsóknum á sjávarstraumum á völdum stöðum í röstum kringum landið en hinn þáttur verkefnisins snýr að stuðningi við tækniþróun á sviði sjávarfallaorku. Yrði styrkurinn nýttur til flekaprófana í Hornafirði og til að hefja smíði frumgerðar sem gæti hafist næsta vetur ef prófanir standast væntingar.

Eins og við þekkjum er Ísland auðugt að hreinni og endurnýjanlegri orku og við höfum stært okkur af því á alþjóðavettvangi að hér sé gnótt af jarðhita og vatnsföllum til virkjunar. Núna er á lokastigi umfjöllun fagnefnda um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem er mikilvæg forsenda þess að skapa hér forsendur fyrir góðu jafnvægi milli umhverfisverndar og auðlindanýtingar í framtíðinni í orkugeiranum. Það er ljóst að jafnvel þó að enn sé mjög miklar orkulindir að hafa úr vatnsafli og jarðvarma eru nýtingarmöguleikar þeirra þó takmarkaðir og takmarkast meðal annars af umhverfissjónarmiðum og verndargildi einstakra svæða. Það er því ljóst að það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að huga jafnframt að því til lengri framtíðar að finna nýjar leiðir um orkuöflun og núlifandi kynslóð getur sannarlega lagt sitt af mörkum til að svo megi verða, t.d. með rannsóknum og gagnaöflun er tengjast virkjun sjávarorkunnar.

Það er reyndar hollt að hafa í huga að það kann vel að vera að styttra sé í það en margir halda að við verðum uppiskroppa með þá orku sem raunhæft er að virkja í sátt við umhverfið. Í rammaáætlun er talað um 14–18 teravattstundir á ári sem enn megi virkja í sátt við umhverfið og það er ekki víst að slíkt magn dugi til að anna eftirspurn nema í svo sem eins og tvo áratugi. Það mæla öll rök með því að við hugum að nýjum orkugjöfum, ekki síst þeim sem ætla má að hafi óveruleg umhverfisáhrif eins og er um að ræða í þessu tilviki.

Sambærileg tillaga var fyrst lögð fram á vorþingi 2011, 139. löggjafarþingi, en komst þá ekki á dagskrá. Hún var lögð fram á ný á síðasta þingi haustið 2011 og fékkst rædd í 1. umr. en var ekki afgreidd út úr nefnd og náði ekki fram að ganga. Nú standa vonir til þess að tillagan komist á leiðarenda í þriðju tilraun. Mig langar að hnykkja á því að þó að hér sé auðvitað ekki um skammtímahagsmunamál að ræða er enginn vafi á því í mínum huga að það er mikilvægt hagsmunamál til lengri tíma litið að ganga úr skugga um hversu umfangsmikil auðlind er hér á ferðinni og kortleggja með aðstoð færustu sérfræðinga og nýjustu tækni á hvaða stöðum á landinu kunni að vera hagkvæmt að nýta sjávarorkuna til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Til að koma málinu á hreyfingu þarf að samþykkja þessa tillögu hér á Alþingi og tryggja fjármagn til þeirra rannsókna sem eru forsenda þess að við getum metið umfang og nýtingarmöguleika sjávarorku fyrir íslenskan efnahag. Ég vil því skora á fulltrúa í hv. atvinnuveganefnd, ekki síst hv. formann sem stýrir hér fundi fyrir aftan mig, að setja málið á dagskrá hið fyrsta og vonandi afgreiða það á þessu þingi og leggja þar með grunn að því að við getum bætt nýrri stoð undir atvinnulíf okkar og auðlindanýtingu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.