141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

átökin á Gaza.

[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir það að hún hefur áfellst þá sem standa í þessum ömurlegu og hörmulegu átökum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Ég er henni og öllum þingheimi sammála um að þessir atburðir geta haft gríðarlegar afleiðingar. Ég hef fordæmt harkalega það sem þarna er að gerast og ég hef sagt að þetta sé ójafn leikur. Ég hef einnig mótmælt því harðlega sem virðist vera í uppsiglingu, sem er innrás Ísraels á Gaza. Það er alveg ljóst að nú þegar virðist vera að stefna í það sem við sáum árið 2008. Í gær voru tölur um mannfall upp á 67. Við sáum hræðilegar myndir af börnum sem höfðu dáið. Í einni sprengju dóu fimm konur, ein áttræð, fjögur börn. Þetta er auðvitað alveg svakalegt ástand sem heimsbyggðin öll og allir þurfa að leggjast á eitt um að reyna að stöðva.

Ég tel fullkomlega eðlilegt að menn geri það til dæmis með því að grípa til þess réttar sem þeir hafa til að tjá sig og til að mótmæla. Af því að hv. þingmaður spurði út í afstöðu hæstv. innanríkisráðherra þá tel ég að hann hafi allan rétt til að tjá sig með hverjum þeim hætti sem hann vill. Það er ekki hægt að meina neinum að láta tilfinningar sínar í ljósi þegar menn standa andspænis voðaverkum af þessu tagi.

Að því er varðar þá spurningu sem beint var til mín, sem var um það hvort ég væri sammála hv. formanni utanríkismálanefndar um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, þá liggur sú afstaða mín algerlega fyrir. Ég hef rætt það við nefndina sérstaklega. Ég hef skoðað þau mál og eins og hv. þingmaður veit verður engin slík ákvörðun tekin án samráðs við utanríkismálanefnd eða þá að ósk hennar.