141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

aukinn kostnaður vegna nýrrar byggingarreglugerðar.

[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim sem fordæma öll hryðjuverk og hernaðaraðgerðir sem beinast gegn saklausum borgurum. Ég ætlaði reyndar að ræða hér allt annað mál við hæstv. umhverfisráðherra.

Fyrir tæplega einu ári undirritaði hæstv. ráðherra nýja byggingarreglugerð sem taka átti gildi samdægurs með ákveðnum ákvæðum sem var frestað. Síðar var gildistökunni frestað til 1. janúar 2013, ef ég fer rétt með, og nú líður að þeirri stundu. Samtök iðnaðarins hafa boðað til fundar næsta hálfa mánuðinn til að kynna þá reglugerð.

Til að hlaupa rétt aðeins yfir reglugerðina þá eru auðvitað í henni mjög margir góðir þættir eins og heildarendurskoðun í kjölfar nýrra laga um mannvirki, sem samþykkt voru á þinginu 2010, og ýmis nýmæli þar sem áhersla er meðal annars lögð á svokallaða algilda hönnun og sjálfbærni auk fyrirferðarmikilla neytendaákvæða. Líka eru gerðar ýmsar auknar kröfur, t.d. um einangrun. Byggingaraðilar hafa sagt mér að sá kostnaður sem fellur til að mynda á blokkaríbúð eingöngu vegna ákvæða um aukna einangrun sé ígildi 700–800 þús. kr. kostnaðarauka á hverja íbúð, hvað þá í öðru húsnæði.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er hvort kostnaðarauki sem óhjákvæmilega fylgir þessari reglugerð og setningu hennar hafi verið yfirfarinn í ráðuneytinu og hvort ráðuneytið sé sammála þeim sem gerst þekkja í byggingargeiranum og telji að byggingarkostnaður muni hækka um allt að 10%, jafnvel 20% með tilheyrandi vandræðum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi verið gert og hvort til greina komi á þessum kreppu- og erfiðleikatímum að seinka gildistöku þessarar reglugerðar um óákveðinn tíma til að fá tóm til að gefa málinu betri gaum.