141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

aukinn kostnaður vegna nýrrar byggingarreglugerðar.

[15:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er brýn og varðar hagsmuni gríðarlega margra og þakka fyrir tækifærið til að eiga orðaskipti við hann um þau mál.

Menn hafa verið nokkuð drjúgir að kasta fram prósentutölum, 10% eða 20% kostnaðarauka sem stafar af innleiðingu eða gildistöku reglugerðarinnar. Ég hef ekki séð útreikninga þeirra sem hafa haldið þeim kostnaðarauka fram, hvorki Samtaka iðnaðarins né annarra þeirra sem um það hafa fullyrt.

Af því að hv. þingmaður spyr hvort til greina komi að fresta gildistökunni þá má um það segja að yfirstandandi ár er eins konar aðlögunartími og með því að framlengja frestinn ári eftir að reglugerðin tekur í raun gildi gæti samkeppnisstaða manna skekkst umtalsvert. Ég held að það liggi fyrir og hv. þingmanni sé það ljóst, eins og okkur öllum, að iðnaðurinn verður að aðlaga sig nýjum kröfum og má segja að eins gott sé að gera það strax því að um er að ræða fjárfestingar sem eiga að standa til langrar framtíðar.

Eins og kom fram í sanngjarnri yfirferð hv. þingmanns þá er þetta gríðarlega yfirgripsmikil reglugerð sem byggir á mjög miklu og ítarlegu samráði. Það er því mikilvægt og ég fagna því að haldnir skuli vera fundir meðal hagsmunaaðila og í geiranum til að ræða málin, en samráðið var líka verulegt á meðan reglugerðin var í smíðum.

Ég vil geta þess í þessu sambandi að Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg hafa sérstaklega fagnað þeim grunntóni í reglugerðinni sem varðar aukið aðgengi þeirra sem búa við fötlun að samfélaginu í heild, þ.e. öllu íbúðarhúsnæði en ekki bara því sem sérstaklega er hugsað fyrir þann hóp.