141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

aukinn kostnaður vegna nýrrar byggingarreglugerðar.

[15:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Ég var samt ekki að velta því upp hvort iðnaðurinn þyrfti að aðlaga sig, sjálfsagt þarf hann þess og sjálfsagt þarf að taka tillit til samkeppnissjónarmiða. Það sem ég var að velta upp á þessum krepputímum var hvort þetta væri rétti tíminn til að gera kröfu um að þvottavélarherbergi væri í öllum íbúðum, sama hversu litlar þær væru. Við höfum verið að ræða um þörf fyrir að byggja ódýrar námsmannaíbúðir.

Við erum ekki komin með nýja húsnæðisstefnu upp á borð en við erum að kalla eftir ódýru húsnæði sem fólk getur flutt í, keypt, leigt, lækkun á leigumarkaði og annað í þeim dúr. Þessi reglugerð mun hafa akkúrat öfugar afleiðingar. Hún mun snarhækka leiguverð, snarhækka byggingarkostnað og gera ótrúlega miklar kröfur til húsnæðis. Mér er spurn og ég vil gjarnan ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra hvort það komi ekki til greina og sé skynsamlegt á þessum tíma að fresta gildistökunni, alla vega þeim hluta sem leggur svo gríðarlega auknar byrðar og kröfur og kostnað á byggingarkostnað í landinu. Við eigum býsna gott húsnæði í landinu. (Forseti hringir.) Reglugerðinni er ætlað að bæta það talsvert mikið meir og auka aðgengi allra að öllu húsnæði. Spurningin er: Er þetta rétti tíminn (Forseti hringir.) til að auka kröfurnar?