141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

slit stjórnmálasambands við Ísrael.

[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Á þeim tíma sem utanríkismálanefnd samþykkti ályktun sína fól hún mér meðal annars að skipuleggja ferð til Palestínu. Ég gerði það tvisvar. Hið fyrra sinni tókst mér ekki að komast vegna þess að Ísraelar ónýttu þá ferð. Ég skipulagði síðan aðra ferð og fór í hana til Gaza og á Vesturbakkann og sá með eigin augum hvernig Ísraelsmenn fara þar með fólk. Ég var sjálfur stöðvaður af ísraelskum hermönnum sem veltu steinum í götu mína í bókstaflegum skilningi, væddir hríðskotabyssum. Ég sá með eigin augum hvernig þúsundir manna þurftu að safnast saman snemma á morgnana til þess að bíða eftir því að vera hleypt í gegnum girðingu til að geta farið út og sinnt ökrum sínum. Ég sá með eigin augum hve örbirgðin var mikil á Gaza. Ég sá afleiðingar þess sem Desmond Tutu kallaði aðskilnaðarstefnu. Ég þekki því aðeins málið.

Nefndin fól mér sömuleiðis á þeim tíma að kanna þá þrjá kosti sem hv. þingmaður reifaði og las hér upp. Það gerði ég. Ég gaf nefndinni skýrslu á þeim tíma. Ég held að ég hafi talað við, ég man ekki hversu marga, á þriðja tug utanríkisráðherra. Ég tók þetta mál upp hvarvetna, m.a. meðal Norðurlandabúa, hvort hægt væri að grípa sameiginlega til tiltekinna aðgerða. Ég var sjálfur þeirrar skoðunar að það ætti ekki að gera nema samstaða væri um það. Svo reyndist ekki vera. Meira að segja arabaþjóðirnar, þær sem ganga nú harðast fram, eðlilega, til stuðnings Gaza, töldu á þeim tíma að ekki væri rétt að slíta stjórnmálasambandi við Ísraela. Rökin voru þau að það skipti máli að tala við þá, það skipti máli að beita fortölum.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að ekki eigi að hrapa að neinu og Ísland eigi ekki að taka neinar einhliða ákvarðanir, Ísland eigi að reyna að fylgja öðrum Norðurlandaþjóðum í aðgerðum sínum. Ég hef þegar í dag átt samtöl við norrænan kollega um þessi mál einmitt.