141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

slit stjórnmálasambands við Ísrael.

[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að það skipti máli þegar svona atburðir gerast að tillögur af því tagi sem hv. þingmaður boðaði hér komi fram. Ég held að það eitt að þær komi fram, ég tala nú ekki um að þær séu ræddar, hafi áhrif. Það skiptir máli að þingmenn á löggjafarsamkundum reifi þessi mál með svo djúptækum hætti.

Á sínum tíma beitti ég mér fyrir því sem utanríkisráðherra Íslands að leita eftir þeim möguleika að þjóðir, m.a. þjóðir nærstaddar okkur, mundu taka höndum saman og hefja beitingu viðskiptaþvingana með svipuðum hætti og gert var í Suður–Afríku til að berjast gegn aðskilnaðarstefnunni.

Ég greindi bæði þinginu og utanríkismálanefnd sannferðuglega frá því að ekki var grundvöllur fyrir því þá. Ég ætla ekki að leiða neinum getum að því hvort svo sé nú en mér er það til efs. Hins vegar tel ég koma til greina að skoða allar leiðir, en ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að vera samferða sem flestum þjóðum varðandi þær aðgerðir sem við kynnum hugsanlega að (Forseti hringir.) láta af okkur leiða. (Gripið fram í.)