141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

fræðsla í fjármálalæsi.

[15:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er mál sem varðar okkur öll.

Fjármálalæsi rímar mjög vel við þá grunnþætti sem eru lagðir fram í nýjum námskrám. Þar er læsi einn þeirra þátta og sérstaklega tiltekið að ekki sé eingöngu átt við lestur á bók heldur talnalæsi, miðlalæsi o.fl. Við höfum raunar farið í sérstakt tilraunaverkefni á þessu sviði á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Við settum á laggirnar hóp til að skoða hvernig mætti vinna að þessum þætti sérstaklega í skólunum, þ.e. fjármálalæsi. Afrakstur vinnu þessa hóps kom í ljós núna í haust þar sem tilraunakennsla hófst í sex skólum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, bæði í yngri deildum, á gagnfræðastigi og í framhaldsskóla. Hugsunin er að prófa hvernig best er að hanna námsefni og kennsluaðferðir til að kenna fjármálalæsi. Á undanförnum árum hefur komið kennsluefni í þessum efnum en það sem miklu skiptir, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, er að stuðla að símenntun kennara um þessi mál og að það sé eðlilegur hluti af kennaramenntun að fræða um fjármálalæsi og finna því stað. Við höfum unnið þetta verkefni með því að færa fjármálalæsi inn í ólíkar námsgreinar og höfum gert það í samráði við skólafólk og kennarasamtök. Við höfum líka haft Neytendasamtökin með í ráðum og Samtök fjármálafyrirtækja þannig að við erum að reyna að fá alla aðila að borðinu til að vinna að því hvernig við getum gert ungu kynslóðina okkar læsari á fjármál, ekki bara á sín einkafjármál heldur líka á almennar þjóðhagsstærðir.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er full þörf á þessu. Ég er að vonast til þess að þegar þessu verkefni lýkur verðum við komin með bæði námsefni í hendur og reynslu af kennslu sem við getum þá nýtt áfram þannig að þetta verði fastur hluti af starfi allra skóla.