141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

fræðsla í fjármálalæsi.

[15:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við eigum von á því að í lok þessa vetrar, sem sagt í vor, verði metið hvernig til hafi tekist og hvað megi betur fara. Ég á von á því að það mat verði svo undirstaðan fyrir því sem unnið verður áfram.

Ég vil segja að mikill áhugi er á því í skólunum að fara í þessi verkefni, við höfum fundið fyrir því. Það er vel fylgst með því sem er að gerast og við töldum bestu leiðina til að breiða út bæði kennsluhætti og nám í fjármálalæsi vera þá að prófa mismunandi aðferðir í ólíkum skólum og læra af því sem best gengur.

Hv. þingmaður nefndi líka áðan vernd barna og ungmenna. Ég vísa auðvitað til þess að í nýjum fjölmiðlalögum frá síðasta ári voru sett inn sérstök ákvæði um vernd barna gagnvart auglýsingum í fjölmiðlum. Það er hins vegar ekki tekið til fjármálastarfsemi heldur er sérstaklega horft til barna. Ég held að í þessum efnum komi ekkert í stað menntunar og fræðslu barnanna þannig að þau verði sjálf gagnrýnir neytendur og gagnrýnir lesendur á það efni sem þeim er boðið upp á. Ég held að það sé lykillinn að því að við ölum upp öfluga neytendur á þessu sviði.