141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

267. mál
[16:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég veit að hv. þingmanni er mjög annt um þennan málaflokk og hefur fylgst afar vel með þar. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, yfirfærslan í heild hefur tekist mjög vel og farvegurinn í kringum hana hefur verið til fyrirmyndar þó að alltaf komi upp einhver mál, enda er ljóst að sumt þarf að endurskoða þegar fjármálauppgjörið verður árið 2014.

Hv. þingmaður spyr um framkvæmdaáætlunina sem samþykkt var á Alþingi 11. júní síðastliðinn og nær til ársloka 2014. Þar eru tilgreind 43 verkefni og ábyrgðaraðilar fyrir framkvæmd hvers og eins eru skilgreindir. Ráðuneytið sjálft er ábyrgt fyrir framkvæmd margra verkefna en í öðrum koma ábyrgðaraðilar úr öðrum ráðuneytum eða stofnunum og fjármögnun fylgir gjarnan þeim sem ábyrgðina hafa.

Starfsmaður ráðuneytisins hefur heildarumsjón með framkvæmdaáætluninni og samræmingu aðgerða en einnig starfar samráðshópur innan ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að útfæra einstakar aðgerðir sem eru á ábyrgð ráðuneytisins og koma þeim í framkvæmd. Haft hefur verið samband við þá fjölmörgu menn sem tilgreindir eru sem ábyrgðaraðilar fyrir einstökum verkefnum. Þeir hafa tilnefnt tengiliði sem ýmist er ætlað að samræma aðgerðir innan svæðis eða málasviðs eða miðla upplýsingum um stöðu verkefna. Þá hafa ábyrgðaraðilar í einhverjum tilfellum verið boðaðir á fund þar sem mögulegar útfærslur á framkvæmd verkefnisins hafa verið ræddar.

Hvað framkvæmd þeirra aðgerða varðar sem ekki eru á ábyrgð ráðuneytisins mun ráðuneytið fylgja þeim eftir með reglulegum fyrirspurnum um stöðu verkefna ásamt stuðningi og aðstoð ef óskað er eftir. Verkefnið sem kveðið er á um að hrinda skuli í framkvæmd á tímabilinu er mikilvægur liður í fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem innanríkisráðuneytið leiðir. Hafin er vinna á vegum innanríkisráðuneytisins við endurskoðun þýðingar samningsins en brýnt er að sátt skapist um þann mikilvæga mannréttindasáttmála fyrir fatlað fólk. Þá er unnið að skipun samstarfsnefndar ráðuneyta sem undirbúa munu fullgildingu samningsins.

Nýlega var haldin ráðstefna um málið og hefur því verið fylgt eftir með fjárveitingu frá ríkinu. Tillaga hefur verið send til Alþingis um að þar verði veittar 10 eða 12 millj. kr., ef ég man rétt, til að þýða samninginn og fylgja eftir innleiðingu hans.

Um metnaðarfulla framkvæmdaáætlun er að ræða eins og komið hefur fram. Markmiði allmargra verkefna má ná með breyttum vinnuaðferðum án þess að það leiði til kostnaðarauka hjá framkvæmdaraðilum. Að öðru leyti ræðst fjármögnun einstakra verkefna af fjárlagaafgreiðslu Alþingis. Einnig er gert ráð fyrir að fram fari frekara kostnaðarmat við framkvæmdir nokkurra aðgerða á tímabilinu. Sérstaklega er tilgreint að meta þurfi kostnaðinn og er þá tekin sjálfstæð ákvörðun um þau verkefni sem þar eru.

Annars einkennir það framkvæmdaáætlunina að alls staðar eru tilgreind markmið, framkvæmd er tilgreind, tilgreint er hverjir bera ábyrgð á verkefninu, hverjir eru samstarfsaðilar, á hvaða tímabili vinna eigi viðkomandi þætti, hvernig kostnaðurinn skuli greiddur og síðan hvernig mæla skuli niðurstöðuna.

Ef ég fer rétt með eru um 14 millj. kr. áætlaðar á næsta ári í sambandi við framkvæmdir. Ég vona að sendiherraverkefnið verði þar með. Það eru auðvitað ýmsir aðrir þættir sem fylgja þarf eftir og við verðum að tryggja að fjármagn komi jafnóðum og sú vinna fer í gang.