141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

267. mál
[16:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurninguna, ég tel að hún sé mjög brýn. Það skiptir verulega miklu máli þegar við samþykkjum metnaðarfullar áætlanir að þeir ráðherrar sem leggja þær fram sjái nákvæmlega fyrir sér hvernig við ætlum að framfylgja þeim.

Ég mundi vilja bæta við fyrirspurnina hvort hæstv. ráðherra geti nefnt þau ágreiningsefni eða þau vandamál sem upp hafa komið við flutninginn. Ég hef heyrt dæmi um að komið hafi upp ágreiningur á milli ríkis og sveitarfélaga um hver greiða eigi kostnað til dæmis við sólarhringsumönnun barna undir 18 ára aldri. Ég held að það sé mjög brýnt að við í þinginu fáum að fylgja því eftir hvernig staðið hefur verið að flutningi verkefna. Að sama skapi má spyrja hvort við ætlum í raun að standa við þær metnaðarfullu áætlanir sem er verið að samþykkja hér.