141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti á vinnustöðum.

251. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir svörin.

Þetta svar er mjög sambærilegt því sem ég fékk fyrir um tæpu ári. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að heyra ekki tölur eða upplýsingar um árangurinn af þeim áætlunum sem við erum nú komin með, árangurinn af því að vera búin að skipa verkefnisstjóra og koma á eineltisdeginum. Eru til tölur um það að t.d. færri ríkisstarfsmenn þurfi að þola einelti? Eru til upplýsingar um að færri hafi þurft að vera frá vinnu eða færri hafi þurft að hætta í vinnu vegna þess að þeir hafi upplifað andlegt ofbeldi á vinnustað?

Ég mundi gjarnan vilja að ráðherra svaraði mér því, þó að það hafi ekki komið fram í skriflegu spurningunni, hvort það hafi verið í umræðunni hjá honum eða þeim starfshópum sem hann nefndi áðan að setja lög sem tryggja betur réttarstöðu þolenda, þeirra sem verða fyrir ofbeldinu. Ég vil skilgreina einelti sem ofbeldi. Ég spyr hvort þetta hafi verið rætt því að núna stendur það upp á fórnarlambið að sýna fram á að ekki hafi verið tekið á málum á réttan hátt. Hvort sem það er á vinnustað eða í skóla hafa þolendur eineltis fyrst þurft að upplifa eineltið og síðan þurfa þeir að leita réttar síns. Það getur hreinlega reynst fólki ofviða þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að það að verða fyrir stöðugu einelti hefur áhrif sem má einna helst líkja við áfallaröskun (Forseti hringir.) og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu þeirra sem fyrir verða.