141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

rekstur framhaldsskóla.

250. mál
[16:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir góð og skýr svör. Af því að málið er mér nú skylt, starfandi innan framhaldsskólakerfisins, hef ég ákveðnar efasemdir um þessa tilhögun eins og ráðherra kom inn á í svari sínu. Ég held að sveitarfélög, mörg hver, séu ekki tilbúin til að taka framhaldsskólann yfir en að sjálfsögðu væri alveg hægt að taka þetta út eins og hvað annað og gera að tilraunaverkefni.

Varðandi samþætt skólastig og áfanga á milli stiga held ég að fyrirkomulagið sé ágætt eins og það er í dag. Ég held að við eigum að láta reyna á það, eins og kom fram hér, að námskráin nái fram að ganga, að innleiðing hennar verði kláruð. Verkefni af þessu tagi þyrfti að undirbúa mjög vel því þetta er risavaxið mál að mínu viti. Ég held að við rekum í sjálfu sér þokkalega góða framhaldsskóla en þeir mega mjög margir taka sig á. Ég sé það, starfandi eftir hinu nýja námsfyrirkomulagi sem hér er verið að reyna að innleiða, að þörf er á því að bæta þetta gamla kerfi.