141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti í skólum.

252. mál
[16:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Ég get tekið undir með henni, einelti er ofbeldi og það á ekki að líða í skólum eða á vinnustöðum eða hvar sem við komum. Ég hef þá trú að mikið hafi breyst í þessari umræðu á undanförnum árum, sem betur fer. Ég held hins vegar að mjög margir sem komnir eru á fullorðinsár geti rifjað upp persónuleg dæmi um eineltismál í skólum sem ekki var tekið á. Hv. þingmaður nefndi rannsóknir máli sínu til stuðnings og ég held að þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á Íslandi sýni talsvert umfang. Þær kannanir sem gerðar hafa verið í gegnum árin hafa sýnt of mikið umfang eineltismála. Ég held að við vitum öll að flestir þekkja til einhverra slíkra mála.

Sem betur fer hefur umræða aukist um þetta mál, vitund um það aukist. Í þeim lögum sem sett voru 2008 var aukin áhersla á velferð nemenda á öllum skólastigum, öryggi og vellíðan. Við höfum unnið áfram með þetta. Lögum hefur verið breytt síðan, bæði grunn- og framhaldsskólalögum, þ.e. ég hef lagt til breytingar. Á vorþingi 2010 voru samþykktar breytingar á grunnskólalögum sem styrkja réttindi nemenda og gefa ráðuneytinu skýrari lagastoð til að útfæra tiltekin atriði í reglugerð. Það sneri ekki aðeins að einelti, það snerti skólagöngu fósturbarna og líka skólareglur, skólabrag og aðgerðir gegn einelti. Skólum ber núna að setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti og áætlun um það hvernig þeir byggja upp jákvæðan skólabrag.

Samstaða náðist hér á þinginu um þessar breytingar og á vorþinginu 2012 voru sambærilegar lagabreytingar gerðar á framhaldsskólalögum. Hvað varðar lagabreytinguna sem var gerð á grunnskólalögum þá gáfum við út nýja reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Var hún unnin í miklu samráði við hagsmunaaðila og er þeirri reglugerð ætlað víðtækt hlutverk hvað varðar skólabrag, agamál, eineltismál, ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í þeim efnum sem og málsmeðferð í skólum þegar misbrestur verður á tilteknum atriðum.

Heildarhugsunin er sú að við viljum koma í veg fyrir eineltismál eins og við getum en við viljum líka vera viðbúin að taka á þeim komi þau upp. Í reglugerðinni er fjallað mjög ítarlega um starf grunnskóla gegn einelti. Þar kemur fram, eins og ég sagði áðan, að allir skólar skuli hafa heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál. Á grundvelli þessarar reglugerðar, og mig minnir að það hafi verið í undirbúningi þegar ég svaraði hv. þingmanni síðast, var stofnað sérstakt fagráð í eineltismálum sem starfar á landsvísu. Hugsunin er sú að foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð fagráðsins ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir tilraunir og sérfræðiþjónustu. Ákveðinn ferill hefur verið settur niður. Fagráðið hefur þegar tekið til starfa, er farið að vinna og til þess hafa þegar borist erfið eineltismál. Sambærileg reglugerð um ábyrgð og skyldur er í smíðum fyrir framhaldsskóla þar sem setja á ákvæði um aðgerðir og málsmeðferð vegna eineltis.

Þetta hefur gerst á síðustu missirum. Mér finnst líka rétt að geta þess að ráðuneytið hefur frá upphafi stutt fjárhagslega við bakið á Olweusar-áætluninni í skólum. Tíu ár eru liðin síðan fyrstu skólarnir innleiddu þá áætlun hér á landi. Síðan hefur verið stutt við bakið á ýmsum öðrum verkefnum í skólum þar sem verið er að vinna að bættum skólabrag og jákvæðari hegðun. Í öllum okkar stofnanaúttektum er sérstaklega spurt um einelti, með hvaða hætti unnið sé að jákvæðum skólabrag, hvernig sé brugðist við eineltismálum. Öllum þessum úttektum er svo fylgt eftir með umbótaáætlunum. Þannig að þetta er orðið liður í því sem við getum kallað ytra mat á skólum.

Hv. þingmaður nefndi verkefnisstjórnina. Hún vinnur þvert á kerfið og á að gera það. Hún hefur verið að vekja fólk, stofnanir og vinnustaði, til vitundar um einelti. Hinn árlegi baráttudagur gegn einelti var 8. nóvember og þá fékk kvennalandsliðið í knattspyrnu sérstaka viðurkenningu fyrir innlegg sitt í þá umræðu. Ég ítreka að þetta er mál sem við eigum alltaf að vera að vinna að. Ég er ekki viss um að það verði leyst endanlega en ég held að við getum staðið okkur miklu betur í því að fyrirbyggja einelti, sérstaklega á fyrstu stigum. Ef einelti fær að grassera, ef við getum sagt svo, ef því er leyft að halda áfram, getur það haft óafturkræf áhrif á þá einstaklinga sem fyrir því verða.