141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

snjóflóðavarnir.

244. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Hundruð Íslendinga hafa illu heilli farist í snjóflóðum á liðnum öldum og stafar enn mikil hætta af hvers konar ofanflóðum víða um land. Við heyrum nú fréttir þess efnis að snjóflóðahætta sé víða á landinu, jafnt á Vestfjörðum sem um norðanvert landið og austur fyrir Mývatnsöræfi. Þessi vandi minnir á sig á hverjum einasta vetri, ef svo má segja, á Íslandi enda ber landið nafn með rentu í þessum efnum.

Það er ánægjulegt að sjá hversu ágætum upphæðum landsmönnum og stjórnvöldum á hverjum tíma hefur tekist að verja í snjóflóðavarnir ofan byggða víða um landið, jafnt á Vestfjörðum sem á miðju Norðurlandi og austur á fjörðum. Sá sem hér stendur telur þetta mikilsverðar aðgerðir til að beina flóðum fram hjá byggð eða hindra för þeirra að öllu eða mestu leyti. Reynslan af snjóflóðavörnum víða um land hefur sannað sig svo um munar með þeim margvíslegu aðgerðum sem gripið hefur verið til hvort heldur er með stálþilum sem slegin hafa verið niður í jörð við vegi, með skálum eða með leiðigörðum og varnargörðum fyrir ofan byggð eins og þekkist á Siglufirði, Súðavík, Ísafirði, Ólafsfirði, Neskaupstað, Bolungarvík og svo mætti áfram telja.

Mig langar að vita, herra forseti, hvernig þessum málum er háttað nú um stundir og beini eftirfarandi spurningum til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra:

1. Hvar á landinu er nú unnið að snjóflóðavörnum?

2. Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til málaflokksins frá 2009?

3. Hversu miklum fjármunum er áætlað að verja til málaflokksins á næstu árum?

4. Hversu miklir fjármunir eru nú í ofanflóðasjóði?

5. Hvenær er áætlað að viðamestu snjóflóðavörnunum ofan íbúðabyggðar á Íslandi verði lokið? — Þetta er kannski undarleg spurning í ljósi þess að hér þarf viðkomandi hæstv. ráðherra að leggja mat á hvað sé viðamest í þessum efnum, en það getur svo sem breyst með tíð og tíma og breyttum aðstæðum.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti svarað þessum spurningum hér og nú.