141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

snjóflóðavarnir.

244. mál
[17:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi staðsetningar núverandi framkvæmda standa nú yfir framkvæmdir við varnargarða annars vegar undir Kubba á Ísafirði, sem er áætlað að ljúki á þessu ári, og hins vegar á Tröllagiljasvæðinu á Neskaupstað en þar er áætlað að verkinu ljúki á næstu tveimur árum. Framkvæmdum var að ljúka við varnargarða í Bolungarvík og í Ólafsfirði og við svokölluð upptakastoðvirki á Tröllagiljasvæðinu í Neskaupstað. Þá eru framkvæmdir að hefjast við varnargarð ofan skóla og sjúkrahúss á Patreksfirði og við færslu lagna á Ísafirði vegna fyrirhugaðra framkvæmda við varnargarða undir Gleiðarhjalla, en stefnt er að því að bjóða það verk út í vetur. Einnig er unnið að gerð útboðsgagna vegna fyrsta áfanga upptakastoðvirkja á Siglufirði og krapaflóðavarna í Fáskrúðsfirði og er stefnt að því að bæði þessi verk verði boðin út í vetur.

Hv. þingmaður spyr hversu miklum fjármunum hafi verið varið til málaflokksins frá 2009. Því er til að svara að á þessum árum, þ.e. frá 2009 til ársins í ár, hefur verið varið alls 5.290 millj. kr. til ofanflóðaverkefna og í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir 1.264 millj. kr. til verkefna á vegum sjóðsins.

Höfuðstóll ofanflóðasjóðs, af því að um það er spurt, í árslok 2011 var tæpir 10 milljarðar kr. og þar af var bundið eigið fé um 8,5 milljarðar.

Reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun á nýtingu hættusvæða kveður á um að framkvæmdum við brýnustu varnaraðgerðir gegn ofanflóðum fyrir öll svonefnd svæði C samkvæmt hættumati verði lokið eigi síðar en á árinu 2020. Til að svo geti orðið miðað við stöðuna eins og hún er nú og verðlag dagsins í dag er áætlað að verja þurfi um 2 milljörðum kr. á ári til verkefnisins en mjög gróflega áætlaður heildarkostnaður við að ljúka gerð snjóflóðavarna, samkvæmt þeirri áætlun sem unnin var í kjölfar snjóflóðahamfaranna í Súðavík og á Flateyri 1995, er talinn liggja á bilinu 14–17 milljarðar kr.

Ég vona, virðulegur forseti, að ég hafi náð að svara efnislega þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín hér áðan. Ég tel þó rétt að halda því til haga í þessari umræðu, af því að við erum á óvenjulegum tímum og dregið var úr framkvæmdum vegna efnahagshrunsins eða hægt á þeim, að í raun hefur verið dregið úr framkvæmdum til ofanflóðaverkefna tvisvar, annars vegar vegna þenslu vegna Kárahnjúkavirkjunar, en þá var ákveðið að seinka framkvæmdum við ofanflóðavarnir á tímabilinu 2002–2007 til að draga úr þenslu í hagkerfinu, og hins vegar var nýlega dregið úr framkvæmdum eða hægt á þeim vegna hrunsins 2009. Því má með réttu halda því fram að nánast hafi verið samfellt tímabil samdráttar í framkvæmdahraða miðað við það sem áætlað var upphaflega frá árinu 2002. Af sjálfu leiðir að í öllum tilvikum hafa tekjur sjóðsins verið vel umfram það sem varið hefur verið til framkvæmda því að tekjur hans hafa verið jafnar og þéttar. Það er meginástæða þess að fyrirsjáanlegt er að það mun taka nokkur ár enn að ljúka þeim framkvæmdum sem ákveðið var í samráði viðkomandi sveitarfélaga að ráðast í þegar verkefnið hófst á árinu 1996.

Ég vænti þess og deili þeirri sýn með hv. þingmanni að okkur takist að halda takti þannig að unnt verði að ljúka þessum verkefnum fyrir fyrirhugaðan tíma, ekki bara vegna þess að þetta eru mikilvæg atvinnu- og byggðaverkefni heldur auðvitað fyrst og fremst vegna þess að þetta snýst um öryggi þeirra íbúa sem búa á þessum svæðum.