141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

snjóflóðavarnir.

244. mál
[17:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn og ráðherra fyrir svörin. Það er staðreynd að við þurfum að halda dampi í þessum framkvæmdum sem því miður hafa dregist saman undanfarin ár. Það er staðreynd að þessi mannvirki hafa öll varið byggð og sannað gildi sitt, þrátt fyrir að margir segi gjarnan að það hafi ekki fallið snjóflóð í manna minnum. Í mínu kjördæmi, eins og ráðherra kom inn á, eru mjög margar framkvæmdir búnar að vera í gangi sem er að ljúka. Afar mikilvægt er að ljúka þeim því að það er enn verið að rýma hús sökum þess að þær hafa ekki klárast vegna þeirra tafa sem urðu eins og réttilega var hér nefnt, vegna hruns og þenslu.

Það má heldur ekki gleyma því, af því að hér er talað um peninga og sjóði og annað því um líkt, að ofanflóðasjóði er væntanlega ætlað að leggja fram fé til að viðhalda öllum þessum mannvirkjum. Ég taldi hér til mörg mannvirki sem reist hafa verið (Forseti hringir.) og þeim þarf sjóðurinn að halda við á móti sveitarfélögunum, þannig að menn mega heldur ekki sjá ofsjónum yfir þeim fjárhæðum sem þar hafa safnast.