141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi ræða aðeins um forgangsröðun, bæði í löggjafarstörfum okkar og eftirliti með meðal annars framkvæmdarvaldinu. Í dag verður rætt hér um stjórnarskrána og væntanlega seinna í vikunni rammaáætlun þar sem lagt er til í tillögum meiri hlutans að taka burtu nánast alla möguleika á að byggja upp áframhaldandi orkufrekan iðnað, koma einhverri hreyfingu á byggingargeirann í landinu og skapa störf, fjárfestingu og gjaldeyri.

Á meðan eru alls kyns jafnvel minni hlutir sem við látum fara fram hjá okkur. Ég tók umræðu hér í gær við hæstv. umhverfisráðherra um byggingarreglugerð sem mun hafa þær afleiðingar að byggingarkostnaður hækkar um jafnvel 10–20% bara við innleiðinguna. Hæstv. ráðherra virtist ekki skilja alvarleika þess að hækka byggingarkostnaðinn og talaði um samkeppnissjónarmið og aðra hluti. Auðvitað var margt jákvætt í þessari reglugerð en það er alvarlegt að hækka byggingarkostnaðinn með svo gríðarlegum tölum sem reyndar eru ekki allar komnar fram. Enn hefur ekki verið reiknað út í ráðuneytinu hver verða bein áhrif á vísitöluna og þar með lán heimila. Það er sú forgangsröðun sem við hefðum átt að vera að tala um í þinginu, þ.e. hvernig við ætlum að koma til móts við skuldug heimili. Þar höfum við framsóknarmenn ítrekað lagt fram ítarlegar tillögur, m.a. um að setja þak á verðtrygginguna og koma til móts við skuldir fólks með almennum hætti.

Ég hefði líka kosið að hér væri talað um sókn í atvinnumálum til að koma atvinnulífinu í gang, minnka atvinnuleysi og brottflutning fólks, hvað þá það sem hefur verið rætt, m.a. í gær, um öryggi borgaranna, löggæsluna og nauðsyn þess að tryggja grunnþjónustu í heilbrigðisþjónustu hvar sem er á landinu. Þetta hefði að mínu mati, frú forseti, verið eðlilegri forgangsröðun en sú sem hér er beitt.