141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um sjúkraflutningana, þetta er nokkuð sem ég held að velferðarnefnd þingsins ætti að skoða.

Mikilvæg umræða um tannheilsu barna og unglinga hefur átt sér stað undanfarið og er hún löngu tímabær. Starfshópur á vegum hæstv. velferðarráðherra skilaði af sér minnisblaði í október sl. með tillögum að framtíðarskipulagi tannlækninga barna. Þar er lagt til að verkefninu verði áfangaskipt, að það hefjist á árinu 2013 og að á hverju ári verði bætt við árgöngum. Ef tveimur árgöngum er bætt við á ári tekur sex ár að innleiða kerfið. Skiptar skoðanir eru á þessu fyrirkomulagi en nú er boltinn hjá ráðherra.

Nú hefur komið fram þingsályktunartillaga um skólatannlækningar og hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem vinni tillögur að því að hefja að nýju tannvernd og tanneftirlit í grunnskólum — og eftir atvikum tannlækningar að einhverju marki ef nefndin metur svo.“

Virðulegi forseti. Við getum öll verið sammála um að tannheilsa barna og unglinga er stórt vandamál. En eru skólatannlækningar rétta svarið?

Þegar farið var að innheimta greiðslu fyrir hluta kostnaðar hjá forráðamönnum skólabarna brast grundvöllur skólatannlækninga. Þá var ekki lengur hægt að kalla nemendur út úr tíma til eftirlits án skriflegs samþykkis eða fylgdar forráðamanns. Hæstv. velferðarráðherra upplýsti á Alþingi hinn 22. október sl. að stofnkostnaður við tannlæknastofur í um helmingi grunnskóla landsins — ég veit ekki af hverju hann talar bara um helming þeirra — geti numið allt að 2,6 milljörðum.

Á ríkið að leggja út í þennan kostnað? Væri ekki skynsamlegra að nota þessa fjármuni í að gera við tennur í börnum og unglingum? Málið snýst um að ná samningum og við verðum að muna að það er mikilvægt að einbeita okkur að því (Forseti hringir.) að hafa forvarnir og fræðslu í forgrunni til að fyrirbyggja að þetta vandamál verði viðvarandi.