141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því sem er harla óvenjulegt, að taka undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar (Gripið fram í.) um skipulag sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu og afstöðu fjármálaráðuneytisins og ráðuneytanna almennt í þeim efnum. Það er mjög mikilvægt að halda þessu samstarfi áfram. Reynsla íbúa í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ af samstarfi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og sjúkraflutninga er góð. Þetta er örugg og góð þjónusta sem við reiðum okkur öll á og hefur skilað mikilvægum árangri í forvörnum á sviði eldvarna.

Það á ekki að hrófla við eða grafa undan því sem vel er gert. Það er ekki einfalt að reka þetta stóra batterí en það má spara í því, m.a. með því að hafa fjölbreyttari bíla til ráðstöfunar en nú er. Það er ófært að nota sérútbúna neyðarbíla til að flytja fólk sem hefur fótavist á milli sjúkradeilda eða í rannsóknir frá hjúkrunarheimilum.

Það er miklum mun dýrara að slíta í sundur slökkviliðið og sjúkraflutningana en að reyna að halda þessu saman. Það sýndi sig í athugun sem var gerð meðan ég var í heilbrigðisráðuneytinu að viðbótarkostnaðurinn skipti tugum ef ekki hundruðum milljóna. Til þessa verðum við að horfa.

Ég bið um að fá að komast aftur á mælendaskrá.