141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur er Eirarmálið með þeim hætti að það má segja að þarna sé um að ræða mál sem varði rekstur fasteigna hjúkrunarheimilisins og sölu á íbúðum. Ég ætla ekki að hafa stór orð um það sem gerðist en þarna er augljóslega mjög alvarlegt mál á ferðinni og það verður rannsakað ofan í kjölinn enda um að ræða gríðarlega hagsmuni íbúa þessa heimilis.

Varðandi rekstur hjúkrunarheimila er hann með ýmsu móti á Íslandi. Velferðarnefnd hyggst í kjölfar ferðar sinnar um Suðurland fara yfir mat á þörf fyrir hjúkrunarrými og áætlanir um að uppfylla þörf fyrir hjúkrunarheimili. Varðandi rekstrarform og rekstur einstakra heimila væri aðkoma nefndarinnar einna helst sú að fara fram á að farið verði yfir rekstur allra hjúkrunarheimila á Íslandi, hvort þar sé eitthvað í gangi svipað þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið á Eir og hvort tryggt sé að eigendur leggi ekki ævifjármunina sína í hendurnar á fjárglæfrafólki.

Á þessari stundu vil ég ekki segja með hvaða hætti nefndin mun gera þetta, en ég tel eðlilegt að það séu einhverjir aðrir en velferðarnefnd sjálf sem fari yfir þessa þætti. Við munum samhliða því sem við ræðum um þörf fyrir hjúkrunarheimili og málefni hjúkrunarheimila út frá því sjónarhorni ræða með hvaða hætti hægt er að auka öryggi þeirra sem flytja á hjúkrunarheimili. Það er augljóst af þessu máli að traust fólks á þeim stofnunum sem reknar eru fyrir ríkisfé fyrir aldraða (Forseti hringir.) hefur borið alvarlegan skaða.