141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir tækifærið sem aðrir þingmenn hafa veitt með því að biðja ekki um orðið og leyfa mér að koma hér og taka aftur til máls.

Það eru mikil tíðindi sem gerst hafa hér í dag með því að búið er að dreifa og leggja fram nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Það er plagg upp á tæpar 70 blaðsíður, mjög þétt og vel unnið eins og vera ber, en á tveimur þingum, frá í fyrra og núna. Hér liggur fyrir niðurstaða meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar ásamt tveimur minnihlutaálitum og einnig álit frá meiri hluta atvinnuveganefndar ásamt tveimur minnihlutaálitum.

Í niðurstöðum meiri hluta í umhverfis- og samgöngunefnd segir að með samþykkt tillögunnar yrði stigið ótvírætt framfaraskref við náttúruvernd og umgengni við landið jafnframt því sem orkuöflun væri settur tiltekinn starfsrammi þannig að sú starfsemi búi við meira rekstraröryggi og minni átök þegar að nýframkvæmdum kemur. Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi.

Frú forseti. Ég er ein af þeim sem skrifa undir álitið algerlega fyrirvaralaust en vek um leið athygli á því að á þeim 30 blaðsíðum sem álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er, er að finna fjölda ábendinga og leiðbeininga til bæði næstu verkefnisstjórnar og ráðherra, reyndar eru ellefu ábendingar til næstu verkefnisstjórnar og fimm til ráðherra. Ég tel að það séu mikil tíðindi og fagna því sérstaklega að vinnu í nefndunum skuli nú vera lokið og hlakka til að taka þátt í umræðum (Forseti hringir.) um þetta brýna málefni á komandi vikum.