141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þrátt fyrir að málstaður gyðinga og stofnun Ísraelsríkis hafi ætíð notið mikillar samúðar af hálfu Íslendinga og stuðnings verður ekki horft fram hjá því að Ísraelsríki var reist á ofbeldi. Palestínu var skipt til helminga í óþökk þeirrar þjóðar sem bjó þar fyrir og síðan þá hefur markviss útþensla Ísraelsmanna á þessu landsvæði líka verið í óþökk þeirra íbúa sem þarna hafa búið. Palestínumenn eru orðnir, og það fyrir löngu, flóttamenn í eigin landi og búa núna í einhvers konar landfræðilegu fangelsi, njóta ekki lágmarksmannréttinda. Allt þetta hafa Ísraelsmenn gert í óþökk alþjóðastofnana, í óþökk alþjóðasamfélagsins, í trássi við ýmsa sáttmála sem gilda um þessi mál og nú verð ég að segja að ég er afskaplega sáttur við hvernig við hér í þessum sal og stjórnvöld á Íslandi hafa stutt við frelsisbaráttu Palestínumanna. Ég er mjög sáttur við það að íslenskir ráðamenn hafa heimsótt leiðtoga Palestínumanna og að við höfum stutt sjálfstæði Palestínuríkis. Þessu eigum við að halda áfram en núna held ég að við þurfum líka að nota þessa rödd sem við höfum haft í þessu máli og stöðu okkar sem rótgróins lýðræðisríkis til að fara og tala við Ísrael til þess að reyna að segja Ísraelsmönnum að þeir verði að vilja frið í þessum landshluta og þeir verði að hætta þessum yfirgangi og ofbeldi.