141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eftir sprengjuárásirnar á Gaza hafa staðið yfir í marga daga, eftir að þar hafa fallið yfir hundrað manns, karlar, konur, börn, fólk ungt og gamalt, biður hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, Ísraelsmenn um að gæta meðalhófs. Það eru ráðin frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að gæta meðalhófs. Að gæta meðalhófs við hvaða markmið? Innanríkisráðherra Ísraelsmanna hefur lýst því yfir að þessum aðgerðum sé ætlað að sprengja Gaza-svæðið og Palestínu aftur á miðaldir, að eyðileggja grunnstoðirnar í hinu palestínska samfélagi. Hér rís upp þingmaður sem biður innanríkisráðherrann og stjórn hans og her að gæta meðalhófs við það markmið.

Fyrirgefðu, forseti, að ég blandi íslenskum málum í þessa deilu og þessa hörmulegu atburði en svona tala menn ekki, Bjarni Benediktsson. Það er vont við þetta mál að margt bendir til þess að þessi árás hafi verið undirbúin, að það hafi verið beðið eftir því tilefni sem auðvitað gefst alltaf hjá þessari hröktu þjóð, að menn grípa til örþrifaráða í öfgahópum. Arabíska vorið hefur veikt grannríkin. Í Sýrlandi er borgarastyrjöld, í Egyptalandi er veik stjórn og enginn her. Það er athyglisvert að þetta gerist rétt eftir bandarísku forsetakosningarnar. Hér á Íslandi og víðar í okkar heimshluta hugsum við um styrjöld sem undantekningu. Margt bendir því miður til þess að meginleiðtogar Ísraelsmanna hugsi um styrjöld sem reglu, sem hið eðlilega ástand, styrjöld sem beri að vinna að þangað til andstæðingurinn er molnaður niður, er dauður og ekkert er eftir. (Forseti hringir.) Þetta ríki getum við ekki stutt, við hljótum að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir að þessi öfgaverk haldi áfram.