141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:36]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Ég skrifaði örstutt skilaboð til Benjamíns Netanyahu á fésbókarsíðu hans í gær um að heimurinn væri að fylgjast með. Ég veit að margir hafa gert slíkt hið sama. Heimurinn er orðinn mjög lítill í því samhengi. Það er auðvelt fyrir okkur að teygja okkur út og láta vita hverjar skoðanir okkar eru. Það er orðið svo að hver venjulegur Íslendingur getur skipt máli vegna þess að finni aðilar fyrir botni Miðjarðarhafs að heimurinn er að fylgjast með eykur það þrýsting.

Ég flutti ásamt hv. þm. Birni Vali Gíslasyni tillögu á vettvangi ÖSE í sumar um að veita Palestínumönnum áheyrnaraðild að ÖSE. Sú tillaga var því miður felld, þó ekki með meira en sex atkvæða mun og verður hún flutt aftur. Þetta var í annað skipti sem tillagan var flutt og munurinn minnkar alltaf. Hann mun minnka meira næst og fullnaðarsigur nást. Af hverju erum við að gera þetta? Til þess að gefa Palestínumönnum rödd. Við vitum að Ísland skiptir máli á alþjóðavettvangi vegna þess að það hefur rödd. Það getur skipt Palestínumenn miklu máli að fá ekki bara að lýsa sínum sjónarmiðum og taka þátt á jafnræðisgrundvelli með öðrum þjóðum heldur að þeim sé líka sýnt traustið sem felst í því. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar og íslenskir stjórnmálamenn eigi að beita sér fyrir þessu því að hvernig vinnum við friðinn? Með því að tala saman. Með því að ætla ekki hvort öðru illan ásetning þegar við hlustum á hvort annað tala um þetta efni heldur gera ráð fyrir að góður hugur búi að baki, hvort sem um ræðir sjálfstæðismenn eða samfylkingarmenn. Við getum leyst málin friðsamlega. Við erum friðsöm lýðræðisþjóð og erum vön því að leysa okkar mál (Forseti hringir.) í friði með því að tala saman. Það eigum við að sýna í verki. Ég hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans framlag til málanna. (Forseti hringir.)