141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég læt vera að rifja upp feril þessa máls þó að ýmislegt hafi mátt betur fara fram að því að skipuð var sérstök nefnd lögfræðinga til þess að yfirfara lagatæknileg atriði frumvarpsins. Þótt sú nefnd hafi haft mjög þröngt umboð — og maður veltir fyrir sér hvers vegna umboðið var skilgreint það þröngt og ágætt væri ef hv. þingmaður gæti svarað því — skilaði þessi nefnd engu að síður mjög mörgum og alvarlegum athugasemdum en jafnframt ábendingum um mikilvægi þess að farið yrði í heildaryfirferð á málinu.

Við hljótum að vera sammála um að þegar menn breyta stjórnarskrá lýðveldisins þurfi að vinna það faglega. Því spyr ég hv. þingmann: Er ekki tilefni til að leita álits innlendra sérfræðinga auk þeirra erlendu á þeim fjölmörgu álitaefnum sem hafa komið upp í umræðu um þetta frumvarp?