141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta frumvarp byrjar ekki vel þar sem hér kristallast hótanir formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Málin fara í gegnum Alþingi á meiri hluta, sagði hv. þingmaður. Það á ekki að fara fram með það í sátt eins og búið er að tala um og lofa. Ég minni á að Norðmenn eru nýlega búnir að breyta sinni stjórnarskrá. Þeir leggja áherslu á að fara með málin í gegn í sem mestri sátt. Þær smávægilegu breytingar sem Norðmenn gerðu tóku þá 5 ár. Hér á að keyra þetta í gegn.

Ég vek athygli á að það eru fimm mánuðir fram að alþingiskosningum. Því ber kannski að fagna að ríkisstjórnin og þeir sem lögðu málið fram eru loksins farin að ræða það efnislega í þingsal.

Svo kemur spurning til hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Búið er að vísa málinu til Feneyjanefndarinnar. Liggur fyrir kostnaðarmat? (Forseti hringir.) Hvað þarf íslenska ríkið að greiða fyrir þá aðstoð? Eða er það hreinlega allt saman ókeypis?