141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir svarið. Mér heyrist að hún sé að velta þessum málum fyrir sér á svipuðum nótum og ég hef stundum gert í þinginu, þ.e. að þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá eða breytta stjórnarskrá verði bindandi endapunktur á ferlinum. Það finnst mér afskaplega mikilvægt og ég er sannfærður um að hægt sé að koma því við. Ég minni á að Björg Thorarensen prófessor lagði fram minnisblað um leiðir í því sambandi á síðasta vetri sem ég held að gæti orðið grunnur að einhverri niðurstöðu um nákvæmlega þennan þátt. Mér finnst þetta athyglisvert vegna þess að í umræðum síðustu vikna hefur stundum verið talað um þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu alþingiskosningum um þessar tillögur, einhvers konar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu nr. tvö.

Varðandi þá hugmynd sem hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nefnir verð ég að segja að mér líst miklu betur á þá niðurstöðu verði hún ofan á.