141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er einn þáttur málsins sem fram hefur komið gagnrýni á. Á sama tíma og stjórnlagaráðið fjallar um mikilvægi þess að menn vandi til lagasetningar, í raun er það undirliggjandi krafa í þeim almennu athugasemdum sem frá ráðinu koma að þinginu verði gert að vanda sérstaklega til lagasetningar, þá er á það bent af ýmsum að þó nokkuð hafi skort á að tillögurnar sem nú eru fram komnar uppfylli þessar sömu kröfur.

Þetta á við um fjölmarga þætti. Það á við um þörfina fyrir breytingar og áhrif af breytingum á kosningakerfinu sem ég hef vakið athygli á. Það á við um þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á forsetaembættinu, en eins og fram hefur komið í erindisbréfi frá lögfræðinganefndinni þykir það nokkuð óvanalegt og Feneyjanefndin hefur bent á það geti skapað sérstakt ástand að hafa tiltölulega valdalítinn forseta með mjög sterkt lýðræðislegt umboð.

Kannski könnumst við Íslendingar við það að á undanförnum átta árum hafi komið upp tilvik þar sem forsetinn vísar til þess að hann hafi mjög sterkt lýðræðislegt umboð. Ekki satt? Í þinginu hafa verið mjög skiptar skoðanir um það hvort hann hafi í raun og veru þau völd sem því umboði fylgja. Kannast menn við það hér? Ætti þetta að vera tilefni til að taka umræðu um þá þætti? Það skortir á að það sé gert í tillögu stjórnlagaráðs.

Góðu fréttirnar eru þær að við erum rétt að hefja 1. umr. um málið. Við hljótum öll að geta treyst því að jafnviðamikið, stórt mál og mikilvægt og þetta fái þá umræðu, meðhöndlun og meðferð í þinginu sem stjórnarskráin kallar á.