141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Því miður get ég tæpast verið sammála því að við þingmenn fáum þann tíma sem við þurfum til að klára þetta mál því að það er svo efnismikið. Við erum að tala um að einungis eru fimm mánuðir til kosninga. Það getur verið skemmri tími ef annaðhvort Vinstri grænir eða Samfylkingin sprengir samstarfið til þess að auka við kosningavinsældir sínar.

Ég fór yfir það áðan að þetta er stjórnarskrá landsins. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagt að senda eigi málið enn einu sinni í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningunum. Ég minni á að prófessor í háskólanum benti á að þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október hefði verið til þess að sefa landsmenn og nota sem kúgunartæki. Því spyr ég hv. þm. Bjarna Benediktsson: Telur hann að það sama búi að baki þegar hæstv. forsætisráðherra talar um að fara með málið í gegnum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í næstu alþingiskosningum eða hvaða hótun er það? (Gripið fram í.)