141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að það er ekki nægur tími til þess að fara í alla þá vinnu sem efnið krefst til að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Ég er þeirrar skoðunar og tel að það muni koma í ljós, tíminn mun leiða það í ljós. Það fer auðvitað eftir því hvernig þeir sem fara með meiri hlutann í þinginu hyggjast halda á málinu en ég tel að tíminn muni leiða það í ljós.

Varðandi hugmyndina um þjóðaratkvæðagreiðslu eftir kosningar er ágætt að rifja það upp að reglan sem núna er að finna í stjórnarskránni um tvö þing er einmitt sett vegna þess að mönnum hugnast ekki sú hugmynd að til skamms tíma geti myndast meiri hluti til breytinga á stjórnarskránni sjálfri sem lifir síðan ekki einar kosningar en geti þvingað fram í millitíðinni breytingar á stjórnarskránni. Þess vegna er reglan þarna.

Hver er staðan í íslenskum stjórnmálum í dag? Samkvæmt öllum mælingum, öllum könnunum er meiri hlutinn sem myndaður var um þessa ríkisstjórn fallinn. Þá skýtur upp kollinum hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu kosningar, (Forseti hringir.) væntanlega til þess að setja nýjan meiri hluta í þrönga stöðu gagnvart þjóðinni. (Forseti hringir.) Auðvitað hugnast mér ekki þessi hugmynd. Mér finnst að breytingar á stjórnarskránni (Forseti hringir.) eigi að fara eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar.