141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér kemur formaður nefndarinnar og segir okkur frá því að hún hafi tekið ákvörðun um það með meiri hlutanum að senda málið áður en það er komið til nefndarinnar til umsagnar hjá Feneyjanefndinni á þeim forsendum sem meiri hluti nefndarinnar kom sér saman um. Þetta er svona einfalt. Það voru ekki rædd í nefndinni þau sjónarmið sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar kunna að hafa um það á hvaða forsendum málið verði sent þangað til umsagnar, hvaða atriði það eru sem þurfi sérstakrar umsagnar við. Sjónarmið um það eiga bara að koma eftir á, það er boðið upp á það eftir á. Málið er farið en það er ekki einu sinni komið til nefndarinnar, það er ekki í nefnd en það er búið að senda það til umsagnar.

Þetta er eftir öðru. Það er enginn raunverulegur vilji hjá nefndarformanni, sem bregst svona við, til þess að eiga vinsamleg samskipti við minni hlutann. Það liggur í hlutarins eðli að maður gerir ekki svona, mér finnst það blasa við. En gott og vel, það er boðið upp á það núna að minni hlutinn í nefndinni geti haft einhverja skoðun á því um hvað Feneyjanefndin eigi að fjalla, hvaða atriði það eru sem sérstaklega þurfi að skoða. Það er ágætt. Mér finnst vinnubrögðin samt sem áður ekki í lagi. Það er bara mín skoðun.

Það er sagt hér að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki til viðræðu um neinar breytingar á stjórnarskránni. Þetta er svona síbylja. Hversu oft hef ég staðið í þessum ræðustól og kallað eftir því að menn settust niður og ræddu þörfina fyrir breytingar á stjórnarskránni? Ég skal gera það einu sinni enn. Mér finnst að menn hefðu annaðhvort átt milli formanna eða í nefndinni að láta fyrir alvöru reyna á það um hvað sátt getur tekist. Ég er þeirrar skoðunar að fullt tilefni sé til þess að setja auðlindaákvæði. Í skýrslu stjórnlaganefndar höfum við fjölmörg dæmi um það hvernig hægt er að útfæra slíkt ákvæði, allt frá hugmyndum Davíðs Oddssonar frá 1995 til hugmynda Geirs Haardes frá 2007 og allt þar á milli, frá auðlindanefndinni og stjórnlaganefndinni, og svo nýjustu útgáfuna frá stjórnlagaráði. Þetta er hægt að ræða, eins og embætti forsetans, eins og þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði (Forseti hringir.) o.s.frv., ef menn væru bara tilbúnir til að hlusta.