141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans.

Hv. þingmaður veltir því upp í ræðu sinni hvort Alþingi ætli sér að gera efnisbreytingu á því frumvarpi sem hér er lagt fyrir eða lagatæknilegar breytingar. Ég er uppteknari af því að velta því fyrir mér hvað Sjálfstæðisflokkurinn hyggst gera í málinu. Mun hann, í þeirri vinnu sem fram undan er á Alþingi, hlusta eftir vilja þjóðarinnar sem birst hefur í fyrsta lagi á þjóðfundi, í öðru lagi í stjórnlagaráðinu og í þriðja lagi í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Tekur hv. þm. Bjarni Benediktsson undir það sjónarmið þjóðarinnar að hér eigi að vera þjóðareign á náttúruauðlindum, að auka eigi vægi persónukjörs, að jafna eigi vægi atkvæðum og að hlutfall þjóðarinnar geti sett mál í þjóðaratkvæðagreiðslu sé vilji fyrir því? Við getum líka nefnt sterkari mannréttindakafla eins og í frumvarpinu varðandi aukið vægi náttúrunnar og aðrar breytingar sem hér eru lagðar til.

Það sem mér finnst mikilvægast og mig langar að ræða um við hv. þingmann er eftirfarandi:

Alþingi hefur mistekist í 60 ár að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskrá. (VigH: Vitleysa er þetta.) Við erum hins vegar búin að færa ákveðið vald til þjóðarinnar og erum að kalla eftir vilja hennar sem birtist okkur með skýrum hætti í þessu frumvarpi. Hins vegar er enginn áhugi hjá þeim sem hér stendur fyrir því að setja stjórnskipun landsins í uppnám eins og hv. þingmaður vill vera láta. Það er ekki svo. Ég kalla eftir því að við þingmenn séum sammála um að hlusta á þann þjóðarvilja sem birst hefur á þjóðfundi, í stjórnlagaráði og í þjóðaratkvæðagreiðslu og reynum að færa þær breytingar inn í stjórnarskrána, en um leið að við reynum að stíga þau skref í sameiningu, því að það er enginn vilji til að setja stjórnskipun landsins í uppnám eða gera einhverjar breytingar sem valdið geta þeim vandkvæðum sem hv. þingmaður nefndi áðan.

Ég legg til að við reynum að feta þessa leið í sameiningu, grípa þjóðarviljann, en um leið að stíga varlega til jarðar hvað snertir stjórnskipan.