141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur komist að niðurstöðu um þjóðfundinn, þ.e. um hvað þar kom fram, en stjórnlaganefndin treystir sér ekki til að draga slíkar ályktanir. Til dæmis segir á bls. 27 í skýrslu stjórnlaganefndar, með leyfi forseta:

„Hér verður því ekki gerð tilraun til að túlka niðurstöður þjóðfundar 2010. Gögnin eru einfaldlega sett fram þannig, að hver og einn getur skoðað þau og metið að eigin vild. Þau eru öllum aðgengileg á netinu á vefsíðu þjóðfundar 2010 […]. Frekari túlkun og flokkun getur orðið viðfangsefni þeirra sem þess [sic] kjósa.“

Ég held að það sé í raun útilokað að draga almenna ályktun af niðurstöðum þjóðfundarins, um viljann til breytinga á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Hvar birtist vilji þjóðfundar til að breyta mannréttindakafla stjórnarskrárinnar? Hvar birtist sá vilji í niðurstöðu hinnar ógildu kosningar á sínum tíma? Birtist meirihlutavilji okkur í vali á stjórnlagaráðsfulltrúum eða stjórnlagaráðsþingfulltrúum þess tíma fyrir því að einhver ákveðin grein kæmi inn í mannréttindakaflann? Nei, auðvitað er það ekki þannig. (Forseti hringir.) Mér finnst menn vera komnir fram úr sér þegar þeir draga slíkar ályktanir.