141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svo umfangsmikið mál að maður týnir sér hér í þessum 250 síðum sem fyrir liggja. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Hann spyr hvort ég telji eðlilegt að flytja hluta af lagasafninu inn í stjórnarskrána. Já, nokkra og flesta sem tillaga er gerð um. Ég verð þó að segja að ég hef aldrei séð þörfina fyrir það að flytja þingsköpin inn í stjórnarskrá. Ég tel að með því sé svigrúm þingsins til þess að bregðast við og breyta verklagi eftir því sem þróunin verður að einhverju leyti skert. Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir þeim röksemdum sem hér eru bornar fram og tel að það skipti miklu máli í framhaldi vinnunnar að heyra til að mynda hvað þingskapanefnd og hvað forsætisnefnd segja um akkúrat þetta atriði. Þar hafa menn lagst yfir þingsköpin undanfarin ár og breytt þeim talsvert. Ég tel mikilvægt að heyra hvað menn segja þar um það mál. Þingsköpin eru það sem er mér efst í huga. Ég sé ekki alveg að þau eigi með svo ríkum hætti heima í stjórnarskrá, en tek auðvitað rökum í því.

Ég ætla að fá að svara spurningu hvað varðar meðfæddan rétt til lífs í seinna andsvari. Það er mikil jafnvægislist að hitta á það hvernig breyta má stjórnarskrá. Það má alls ekki vera of auðvelt og það má heldur alls ekki vera of erfitt. Þetta er eitt af því sem fellur undir sérsvið Feneyjanefndarinnar. Þess voru það mér talsverð vonbrigði þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi það áðan að það væri (Forseti hringir.) lítið rætt. Ég mun hlusta vandlega á það sem kemur frá nefndinni sérstaklega hvað varðar þetta atriði.